At­vik þar sem flug­vél Icelandair á leið frá Kefla­vík til Manchester var lent í Glas­gow vegna ó­kyrrðar hefur verið til­kynnt til flug­mála­yfir­valda í Bret­landi. Þor­kell Ágústs­son hjá rann­sóknar­nefnd sam­göngu­slysa segir í sam­tali við Frétta­blaðið að Icelandair hafi til­kynnt at­vikið til rann­sóknar­nefndarinnar.

„Það var bara hringt í okkur og okkur til­kynnt um þetta og við á­fram­fluttum þessa til­kynningu til flug­mála­yfir­valda í Bret­landi af því að at­vikið á sér stað þar. Svo á­kveða þeir bara hvað þarf að gera.“

Spurður að því hvort að venja sé að til­kynna at­vik sem verða vegna ó­kyrrðar líkt og þessarar segir Þor­kell það fara eftir hverju til­viki fyrir sig. Í þessu til­viki hafi flugé­lagið metið það sem svo að þurft hafi að til­kynna það.

Í fyrstu átti að snúa vélinni aftur til Kefla­víkur eftir að lent hafði verið í Glas­gow en far­þegar neituðu að fljúga aftur með vélinni. Einn far­þegi segir á Twitter að þegar flug­maðurinn hafi til­kynnt það hafi far­þegar hrópað „nei!“

Frétta­stofa Rúv greinir frá því að mikil geðs­hræring hafi gripið um sig á meðal far­þega þegar ó­kyrrðin hófst og fólk hafi grátið.

Far­þegar hafa kvartað undan því að hafa þurft að sitja um borð í vélinni á flug­vellinum í Glas­gow í tvo tíma og ekki fengið að fara frá borði. Far­þegar hafi verið hræddir, svangir og viljað komast úr vélinni.

Þá hefur einn far­þegi kvartað undan því að eftir að vélinni var lent í Glas­gow hafi eina leiðin fyrir far­þega að komast til Manchester verið að fljúga aftur til Ís­lands og fá annað flug á morgun.

Icelandair segir í svari til hans að öryggi far­þega og á­hafnar sé á­vallt í fyrsta sæti hjá flug­fé­laginu og það geri alltaf þær ráð­stafanir sem nauð­syn­legt sé til þess að allir séu öryggir. Ó­kyrrðina hafi mátt rekja til ó­veðursins Ciara, sem nú gengur yfir Bret­lands­eyjar.

Flug­vélinni hefur verið flogið aftur til Ís­lands, en það var gert strax við fyrsta tæki­færi.