Einn var skotinn við bílastæðahúsið í Bergstaðastræti í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og eru þrír karlmenn í haldi vegna málsins.

Sjónarvottur segist hafa vaknað við skothvelli, litið út um gluggann sinn sem snýr í átt að bílastæðahúsinu við Bergstaðastræti, og séð þar karlmann munda vélbyssu.

„Í fyrstu hélt ég að þetta væru flugeldar. Fólk hefur verið að skjóta þeim upp hérna í hverfinu. En hvellirnir virtust vera svolítið taktfastir, fjögur eða fimm skot. Þá leit ég út um gluggann og sá mann með vélbyssu á þaki bílastæðahússins,“ segir sjónarvotturinn í samtali við Fréttablaðið.

„Ég alla vega held að þetta hafi verið vélbyssa. Þetta var stór byssa sem hann hélt á með báðum höndum,“ áréttar hann. Aðspurður segist hann eðlilega hafa orðið hræddur.

„Þetta var óhugnanlegt. Ég var eðlilega hræddur enda er maður ekki vanur að sjá mann með vélbyssu.“

123movies
embedded maps

Hringdi þá sjónarvotturinn samstundis í lögreglu sem mætti á vettvang skömmu seinna ásamt sérsveit lögreglu. Var þá svæðið girt af og lokað fyrir aðgang að öllu bílastæðahúsinu. „Það fékk enginn aðkomu að húsinu langt fram á nótt.“

Sjónvarvottur tók eftirfarandi myndband af aðgerðum lögreglu en þá var árásarmaðurinn horfinn af þakinu.

Þrír í haldi og einn á spítala

Lögreglan segist hafa fengið tilkynningu um skotárásina um klukkan eitt í nótt frá sjálfum aðilanum sem varð fyrir árásinni.

Þrír karlmenn hafa verið handteknir vegna málsins og hefur verið lagt hald á skotvopn og bíl. Sjúkrabíll mætti á svæðið og flutti einn særðan upp á Landspítalann, þar sem hann gekkst undir aðgerð. Sá er ekki í lífshættu.