Stefán Hrafn Magnússon hreindýrabóndi er staddur í Reykjavík að útrétta. Hann ætlar að gefa Þjóðarbókhlöðunni dagbækur sínar um lífið á Grænlandi seinna þennan dag.

Honum finnst ekki endilega gott að sitja á kaffihúsum borgarinnar. Kliðurinn finnst honum óþægilegur, hann er orðinn vanur lágstemmdara andrúmslofti á Grænlandi.

„Það kemur sér vel að vera með skaddaða heyrn í Reykjavík,“ segir hann kíminn. Hann hefur þó fundið sér fundarstað sem honum líkar vel. Gráa köttinn á Hverfisgötu þar sem hann fær sér vel útilátinn hádegisverð á meðan hann rifjar upp fyrstu ferðina til Grænlands og ýmsar svaðilfarir yfir ævi sína.

Stakk af fimmtán ára

Stefán var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann fór fyrst til Grænlands í óleyfi. Hann skrifaði móður sinni kveðjubréf og keypti sér farmiða út til Narsaq og fór þaðan með bát til bæjarins Qaqortoq. Hann fannst eftir þriggja daga dvöl á landinu og sneri aftur heim til Íslands. En eitthvað var breytt innra með honum og hann hafði sterka löngun til að snúa aftur. Og fékk með leyfi móður sinnar að snúa aftur strax ári seinna.

Hvernig var umhorfs á Grænlandi þegar þú fórst þangað fyrst, það hefur auðvitað margt breyst?

„Það fyrsta sem ég tók eftir voru selrifin sem voru hangandi utan á mörgum húsum í bænum til að þurrka kjötið. Þetta sér maður ekki í dag. Þá var hafísinn fastur við land og veiðimenn fóru út á ísinn, veiddu seli og gerðu að aflanum. Nú gerist það varla að ísinn sé fastur við land.

Stefán segir meiri sátt fylgja því að sinna ferðaþjónustu. Hjörðin hans fái að vera á lífi.

Það sem ég man líka eftir var hvað aðbúnaður fólks var frumstæður og sum heimili höfðu ekki vatn. Þetta var gjörólíkt lífinu á Íslandi.

Ég fann fyrir sterkri frelsistilfinningu á Grænlandi, þar var allt svo opið og aðgangur fólks að stórbrotinni náttúru frjáls. Ég var mikið náttúrubarn og hafði sterka þörf fyrir að vera úti og tengjast náttúrunni. Á Grænlandi voru engar hömlur. Á Íslandi þurfti að borga stórfé fyrir að veiða silung eða lax í á. En á Grænlandi geta allir fengið að veiða, það er að vísu svolítið dýrt fyrir ferðamenn því þeir þurfa að kaupa þjónustu í kringum veiðarnar. Almannarétturinn er þannig að Grænlendingar hafa aðgang að náttúrunni án endurgjalds.

Unga fólkið færir von

Það hefur svo ótalmargt breyst. Þú sérð hvergi selrifin hanga úti á húsum til þerris. Ekki nema í fáeinum þorpum í þeim tilgangi að halda í hefðina. Þá eru selveiðar stundaðar frá hraðbátum með 200 hestöflum og kajakróðurinn er meira sport, kajakróðrafélag Grænlands er til sem hefur verkstæði til umráða og þar getur fólk lært að smíða sér hefðbundinn kajak.

Mannlífið hefur líka tekið stórfelldum breytingum og mataræðið. Unga fólkið á Grænlandi hefur fitnað eins og á Íslandi. En áður fyrr, það var mjög sjaldgæft að sjá feitan ungling. Nú borðar unga fólkið pítsur og hamborgara eins og víðast hvar annars staðar og það þarf að hafa fyrir því að halda í matarhefðir eldri kynslóða.

Unga kynslóðin er hins vegar von Grænlands. Hún er vel menntuð og hefur aðra sýn á lífið. Þau geta búið til önnur tækifæri þegar náttúran breytist og atvinnuvegirnir með.“

Stefán er fráskilinn og á tvö börn. Uppkominn son og dóttur sem stundar nám í menntaskóla á Grænlandi.

„Strákurinn minn er 22 ára og hann er á sjó hjá Arctic Prime Brim á togara. Hann hefur verið á togara í fjögur ár en er búinn að átta sig á því að það sé kannski góð hugmynd að fara í skóla. Hann ætlar í menntaskóla í haust og ég held að það sé góð ákvörðun. Dóttir mín komst inn á verslunarbraut menntaskólans í Qaqortoq sem er skólabær Suður-Grænlands. Þegar ég kom í þann bæ fyrst sem ungur maður þá var þar bara barnaskóli og ekkert annað. En nú er þetta orðið mikið fræðasamfélag. Þar er menntaskóli, verslunarskóli og einnig undirbúningsskóli fyrir þá sem hafa flosnað upp úr námi. Í bænum eru fleiri hundruð nemendur frá öllu Grænlandi og stunda nám. Ég er afskaplega stoltur af báðum börnum mínum.

Það hefur fleira breyst. Síðustu ár hefur ferðamannaiðnaðurinn haldið innreið sína á Grænlandi. Mér hefur fundist það hafa góð áhrif á líf fólks. Hjá mér hefur áherslan færst frá bústörfum yfir í ferðaþjónustu. Hjörðin mín fær að vera á lífi.“

Er meiri sátt í því?

„Já, það er það. Og treystir grundvöll fólks. Ég hafði ekki hugsað mér að fara út í ferðaþjónustu, það bara gerðist svona smám saman.“

Umfangsmiklar breytingar hafa orðið á mannlífi og náttúru á Grænlandi.

Rautt gat í snjónum

Stefán er með stórt ör í andlitinu sem liggur undir neðri vör.

Hvað gerðist?

„Þetta var eitt af mörgum slysum sem ég hef lent í. Þetta var snemma vors árið 1989 og ég var að smala hreindýrum og fara með þau af vetrarlandi yfir á sumarlandið. Ég var á vélsleða og horfði til hliðar á hjörðina meðan ég keyrði. Það var skýjað og ég sá því ekki alltaf vel til. Það var alhvíta.

Og þar sem ég horfði á hreindýrahjörðina sem var á leið niður hlíðina mér á vinstri hönd fór ég fram af klettavegg og var allt í einu í lausu lofti. Vélsleðinn flaug á undan mér og ég skall svo niður á hann, beint á skerminn sem skarst í hökuna. Ég veit ekki hvað ég lá lengi í roti en ég vaknaði og horfði á rautt gat ofan í snjóinn. Ég fann svo að ég gat stungið tungunni í gegn. Svo tók ég snjó og þurrkaði svolítið blóðið af mér. Sem betur fer var sleðinn ekki ónýtur. Hann hafði stungist á kaf en mér tókst að grafa hann upp og starta honum. Ég var í 40 kílómetra fjarlægð frá næsta þorpi og ók þangað yfir ísilagðan fjörð. Þetta var á þeim tíma sem voru kaldir vetur. Það hefði ég ekki getað gert í dag, því það frystir ekki lengur yfir fjörðinn. Ljósmóðirin í þorpinu saumaði saman sárið og þetta greri fljótt.“

Og ég veit að þú hefur nú lent í fleiri slysum, hreyfa þau ekkert við þér?

„Ég krassaði einu sinni niður með þyrlu og stútaði henni en labbaði alheill út úr brakinu. Þá sagði kærastan mín við mig að ég þyrfti að sækja mér áfallahjálp. Mér fannst ég ekki þurfa þess, því það var allt í lagi með mig. Ég talaði við eiginmann sálfræðingsins og hann sagði bara nei, nei, drekktu bara eina flösku af brennivíni.“

Já, er það ekki bara misjafnt hvað fólk upplifir sem áfall? Sumir geta líklega hrapað í þyrlum en upplifa kannski frekar áfall ef þeim gengur illa í ástum eða samskiptum?

„Já, það er kannski einstaklingsbundið hvernig og hvort fólk upplifi áfall, það getur komið fram í ýmsum myndum. En aðallega er það egóið sem verður fyrir áfalli þegar maður klaufast.“

Góð auglýsing fyrir Grænland

Þessar breytingar sem þú sérð að eru að verða á náttúrunni á Grænlandi, hvaða þýðingu heldur þú að þær muni hafa fyrir samfélagið?

„Sumir segja að það sé náttúran sem sé meiri áhrifavaldur í þessum breytingum en við mennirnir. Ég hef meiri trú á því sem veðurfræðingar segja um þessar breytingar en aðrir sem vilja hafa á þeim skoðun. Það er alveg öruggt að við erum á hlýindaskeiði núna og að stjórnvöld eru mjög sein að taka við sér. En best er að vera vakandi vegna náttúru og umhverfisverndar og það má alveg breyta aðeins hugmyndafræði um verðmætasköpun mannkyns.

Það vakti mikla athygli þegar Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland fyrr á árinu. Þetta var besta auglýsing sem Grænland hefur fengið. Nú vita allir Bandaríkjamenn hvar Grænland er. Þetta er fáfróðasta þjóð veraldar, bara 10 prósent af þeim eru með vegabréf og það er bara alveg nóg. Það eru 35 milljónir og það verður auðvelt fyrir okkur að markaðssetja Grænland fyrir þeim sem ferðamannastað. Bandaríkjamenn sem koma sem ferðamenn til Grænlands eru oftar en ekki veiðimenn. Þeir kunna að meta frelsið hér og finna sig í gamalkunnu hlutverki kúreka. Það eiga þeir sameiginlegt með Rússum. Hetjuna sem ríður flottum hesti inn í sólarlagið. Í Bandaríkjunum er það kúrekinn á sléttunni og í Rússlandi er það kósakkinn á steppunni.

Mikilvægi landfræðilegrar legu Grænlands hefur færst í vöxt með bráðnun hafíssins á norðurheimskauti og opnun siglingaleiða. Bæði Rússar og Kínverjar eru áhugasamir um þetta og ég tel að þetta gæti snúist í valdabaráttu um auðlindir landsins. Hér á Suður-Grænlandi eru talin vera um 60 prósent náttúruauðlinda heimsins af sjaldgæfum málmum sem eru notaðir til að búa til snjallsíma. Kínverjar sitja líka á svipuðum auðlindum en í minna magni. Um þetta gætu næstu stríð okkar tíma snúist. Um viðskipti og náttúruauðlindir,“ segir Stefán.

„Það eru miklar breytingar fram undan hjá Grænlendingum og kvótamálin stefna í óefni. Það er fullt af trillukörlum á Grænlandi sem margir hverjir eru skuldsettir. Svo það er líka mikill þrýstingur á stjórnvöld að halda veiðum opnum. En vísindamenn halda uppi varnaðarorðum því þetta getur ekki gengið svona lengur. Stjórnvöld eru svifasein í að byggja upp nýjar atvinnugreinar en ég bind vonir við ungu kynslóðina á Grænlandi. Menntuð ung kynslóð mun koma með lausnir.“

„Já, það er kannski einstaklingsbundið hvernig og hvort fólk upplifi áfall, það getur komið fram í ýmsum myndum.“

Þorramatur á Þorláksmessu

Hvernig er hefðbundinn jólamatur á Grænlandi?

„Hann samanstendur af fjórum eða fimm réttum. Rjúpa er aðalrétturinn hjá mörgum Grænlendingum. Þær eru smjörsteiktar í potti og búin til sveppasósa með. Við tínum villta sveppi í sósuna því í birkifjalldrapanum vaxa fínustu kantarellur. Þá eru margir með hreindýr í matinn eða snæhéra sem bragðast líkt og rjúpan. Og á Suður-Grænlandi er lambasteik vinsæll jólamatur.

Á Þorláksmessu eða í hádeginu á aðfangadag er oft borðaður eins konar þorramatur. Þurrkað selkjöt, hvalkjöt með spiki á, siginn fiskur, harðfiskur eða þurrkuð loðna.

Svo er það ætihvönnin, þeir nota hana mjög mikið og nota hana sem grænmeti með mat, á svipaðan hátt og aðrar þjóðir nota sellerí. Það tekur suma tíma að venjast þessu, en ég er mjög hrifinn.“

Þögnin er þýðingarmikil

Að hvaða leyti eru Grænlendingar ólíkir okkur Íslendingum?

„Grænlendingar eru kyrrlátir. Það eru Íslendingar alls ekki. Það keppast allir við að tala og á kaffihúsum þá heyrir þú ekki mannsins mál. En ef þú færir á grænlenskt kaffihús þá finnur þú strax muninn. Fólk ræðir saman í lágum hljóðum og er ekki mikið að trufla umhverfi sitt. En þú skalt ekki vanmeta Grænlending þótt hann sé þögull. Það getur legið djúpt og mikið á bak við.

Þeir eru líka bæði skynsamir og nægjusamir. Þegar það koma Grænlendingar til mín í vinnu þá koma þeir aðeins með helstu nauðsynjar í einni tösku og kannski stígvél. Aðrir koma með heilmikinn farangur,“ segir Stefán og brosir breitt.

„Þeir eru góðar sálir og þeir eru átakafælnir. Og aftur að þögninni því hún getur þýtt svo mikið. Ef þú ert á fundi um eitthvað mikilvægt málefni í grænlensku samfélagi og einhver er ósammála, þá er mjög líklegt að hann segi ekki neitt heldur sitji og hlusti. En svo þegar fundurinn er búinn kemur hann sér snöggt að kjarna málsins. Þannig að ef þú ert með tillögu og þér mætir þögn þá veistu að þú þarft að færa betri rök fyrir máli þínu eða þú hefur tapað baráttunni.“