Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss, á ekki von á því að það verði erfitt að taka við fleirum í farsóttahúsin ef að fólk sem velur 14 daga sóttkví á landamærum verður skyldað til þeirra í sóttkví. Gylfi Þór var gestur á fundi almannavarna í dag. Ekki er ljóst hvort hægt sé að skylda fólk í farsóttahúsin en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði að það væri á ábyrgð ráðuneytis að kanna hvort lagaheimild sé til þess.

Alls hafa þegar mest hefur verið fimm farsóttahús á landinu. Þrjú á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Akureyri og svo eitt á Egilsstöðum. Í dag fylltist það eina sem nú er starfrækt í Reykjavík og því verður annað opnað seinna í dag að sögn Gylfa Þórs.

Alls hafa 1.200 gestir verið hjá þeim og af þeim voru 530 sýkt af veirunni. Hann sagði misjafnt hversu lengi fólk hefur verið því breytingar hafa verið á því hversu lengi fólk hefur þurft að vera í sóttkví.

Alls eru sjö starfsmenn hjá farsóttahúsunum og mikill fjöldi sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum. Gylfi Þór sagði að starfið hefði almennt gengið vel en að talsvert álag væri á starfsfólki og sjálfboðaliðum.

Spurður um veruna í húsinu fyrir fólk sem þarf að dvelja þar sagði hann að herbergin væru ekki stór, fólk fær mat þrisvar á dag og sjálfboðaliðar reyni að ræða við fólk þegar það getur. En annars er um algera einangrun að ræða.