Íslandsstofa fylgist grannt með umfjöllun erlendra fréttamiðla um eldgosið í Meradölum. Fyrstu mælingar benda til að áhugi erlendra fjölmiðla sé ívið minni nú en þegar eldgos hófst á svæðinu fyrir rétt um einu og hálfu ári.

Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu, segir mikilvægt að vakta vel þá athygli sem eldsumbrot af þessu tagi vekja utan landsteinanna. Kastljós erlendra miðla geti skipt miklu máli fyrir Ísland sem áfangastað.

„Á meðan þetta er svona meinlaust og enginn hlýtur skaða af þá eru áhrifin af allri umfjöllun mjög jákvæð. Það er ekki alveg að marka þær tölur sem við sjáum fyrstu dagana á eftir því við þekkjum það frá því í fyrra að það var ekki endilega fréttin af eldgosinu sjálfu sem vakti mesta athyglina heldur öll þessi stórbrotnu myndbönd sem fylgdu í kjölfarið næstu daga á eftir. Við eigum eftir að fá betri tilfinningu fyrir þessu.“

Sveinn segist ekki eiga von á því að hingað flykkist ferðamenn í stórum stíl á næstu vikum. Hann bendir á að áhrif slíkrar umfjöllunar komi yfirleitt fram töluvert seinna.

„Við getum alveg speglað okkur sjálf sem ferðamenn í þeim efnum. Hvað það er sem kemur fyrst upp í hugann þegar verið er að skoða utanlandsferðir á annað borð. Það eru langtímaáhrifin.“

En þótt einhverjir erlendir ferðamenn kunni að stökkva til í snarhasti segir Sveinn ekki beinlínis hlaupið að því að ferðast til Íslands um þessar mundir. „Ísland er eiginlega uppselt í sumar þannig að ég veit hreinlega ekki hvar þeir ferðalangar ættu að finna gistingu eða bílaleigubíl. Það er nú svona fyrsta hindrunin sem mætir fólki sem er á þeim buxunum.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir með Sveini að það geti verið varasamt að draga of miklar ályktanir af fyrstu fréttum af eldgosinu í erlendum miðlum.

„Við vitum að þetta mun hafa jákvæð áhrif á vörumerkið Ísland. Það er alveg klárt. Þetta er enn ein breytan sem gerir landið að spennandi áfangastað og náttúruperlu.“

Jóhannes bendir á að reynsla síðasta árs hafi sýnt að fréttir í erlendum miðlum hafi fyrst og fremst áhrif á þá ferðamenn sem þegar eru komnir til landsins. „Þeir eru líklegir til að breyta sínum ferðum og beina sjónum sínum að Reykjanesinu í auknum mæli. Við þurfum að búa okkur undir það.“

Frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar sé aðaláherslan þó alltaf á að tryggja öryggi.

„Ef okkur tekst það og þetta sjónarspil verður áfram frekar meinlaust, þá er þetta allt saman mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi í heild sinni til lengri tíma litið,“ segir Jóhannes.