Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki geta útilokað að undirafbrigði Omíkron-afbrigðis kórónaveirunnar sem greindist fyrst í Suður-Afríku sé komið til Íslands.

„Það er verið að skoða þetta og við munum gera það betur um helgina og birta fréttir af því eftir helgi hvort þetta sé komið hingað eða ekki,“ segir Þórólfur.

Undirafbrigðin tvö sem um ræðir hafa fengið nöfnin BA4 og BA5 og eru sögð meira smitandi en BA2 sem hefur verið ríkjandi undanfarið.

Einnig hefur undirafbrigðið BA2.12.1 greinst víða og er einnig sagt afar smitandi.

Þórólfur segir mörgum spurningum varðandi undirafbrigðin enn ósvarað en greint hefur verið frá því í erlendum miðlum að fólk sem hefur verið bólusett gegn Covid-19 eða smitast af sjúkdómnum geti engu að síður smitast af afbrigðunum.

„Það eru ákveðnar vísbendingar um að þessi undirafbrigði séu meira smitandi en valdi svipuðum einkennum, en þeim vísbendingum þarf að taka með varúð. Það er óljóst hvernig ónæmi af bólusetningu og fyrri sýkingum verndar en það eru allir að fylgjast mjög náið með þessu og við þurfum að vera vel vakandi næstu vikur, þetta fer að skýrast,“ segir Þórólfur.

Hann segir ekki ástæðu til að „panikka“ vegna undirafbrigðanna. „Þetta bara segir okkur að veiran er víða um heim og ný afbrigði geta sprottið upp hvar sem er. Þetta var ekki óviðbúið,“ segir Þórólfur