Veður­stofan hefur nú varað við veðri um allt land á morgun en appel­sínu­gul við­vörun hefur verið gefin út fyrir þriðju­dag og mið­viku­dag. Vega­gerðin hefur að auki til­kynnt víð­tækar lokanir um land allt næstu daga en búast má við að veðrið verði sem verst annað kvöld.

„Það er bara þessi hrað­vaxandi norðan­átt á vestan­verðu landinu á morgun, það verður ekkert ferða­veður á norðan­verðu landinu og verður veðrið orðið mjög slæmt suð­vestan til líka síð­degis á morgun og annað kvöld,“ segir Elín Björk Jónas­dóttir, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ekki tekin ákvörðun um hvort rauð veðurviðvörun verði gefin út

Að­spurð hvort gefin verði út rauð veður­við­vörun á morgun segir Elín að slík á­kvörðun hafi ekki enn verið tekin. „Það verður gert í sam­ráði við al­manna­varnir þegar að­eins nær dregur. Veður­stofan gerir það ekki ein og við þurfum að fá að­eins fleiri spár áður en við tökum á­kvörðun,“ segir Elín.

Þá er búist við að veðrið verði á­gætt framan af degi á höfuð­borgar­svæðinu og segir Elín að skóla­starf muni lík­legast ekki raskast þar. „Það þarf að fylgjast vel með til­kynningum um slíkt á norðan­verðu landinu. Staðan er þannig að það ætti í raun enginn að vera að fara neitt út úr húsi þar, og þá sem sagt ekki norð­vestan til og austur fyrir Eyja­fjörð á morgun.“

Viðvaranir um miðnætti þriðjudaginn 10. desember.
Mynd/Veðurstofa Íslands/Skjáskot

Hvetur fólk til að vaða ekki út í óvissu

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, verða björgunarsveitir með meiri viðbúnað á meðan veðrið stendur yfir. „Við höfum einbeitt okkur að því í dag að styðja við Veðurstofuna og miðla upplýsingum, sérstaklega til ferðamanna,“ segir Davíð í samtali við Fréttablaðið.

„Það verða sendar út sérstakar tilkynningar á ýmsum tungumálum til fimm þúsund ferðaþjónustuaðila og svo erum við að nota vefinn og rúmlega hundrað upplýsingaskjái út um allt land,“ segir Davíð en hann segir að öðru leyti sé verið að fara yfir stöðuna.

„Um leið ítrekum við þessi tilmæli sem óma hérna frá öllum aðilum að fólk fylgist með færð á vegum og veðurspám og láti það frekar bíða að keyra á milli landshluta heldur en að vera að vaða út í einhverja óvissu,“ segir Davíð að lokum.