Örlög 55 starfsmanna Menntamálastofnunar verða óráðin fram á útmánuði. Ekki verður ráðist í uppsagnir fyrr en ný lög taka gildi. Ný stofnun sem leysa mun þá gömlu af hólmi hefur ekki hlotið nafn.
Fyrir mánuði kynnti mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, frumvarp um lagabreytingu svo setja megi á fót nýja stofnun með víðtækara hlutverk en Menntamálastofnun gegnir. Ráðherra kynnti starfsfólki Menntamálastofnunar ætlanir um að leggja hana niður.
Ráðherra boðaði breytingu á lagaumhverfi svo hægt yrði að setja á stofn nýja þjónustumiðstöð fyrir skólakerfi landsins á öllum stigum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er búist við að fjöldi starfsmanna missi vinnuna.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, nýr forstjóri Menntamálastofnunar, staðfesti gær að það yrði ekki fyrr en eftir að frumvarpið um nýju stofnunina yrði samþykkt á Alþingi sem ráðist yrði í mannabreytingar. Þá sagði Þórdís Jóna að nafn nýju stofnunarinnar lægi enn ekki fyrir. það yrði ákveðið með samráði síðar.
Menntamálaráðuneytið stóð fyrir fundi í vikunni um heildstæða skólaþjónustu. Kom fram að margar afdrifaríkar ákvarðanir hefðu á umliðnum árum verið teknar í menntakerfinu, eitt dæmi er skóli án aðgreiningar og annað dæmi ný aðalnámskrá. Þessar ákvarðanir hafa verið teknar án viðunandi aðkomu skólasamfélagsins, að sögn Þórdísar Jónu.
„Það hefur skort á meiri samvinnu við kennara og við hyggjumst breyta því,“ segir Þórdís Jóna.