Innlent

Ekki unnt að senda þyrlu vegna skerts hvíldar­tíma

Landhelgisgæslan hefur haft í nægu að snúast síðustu daga og hefur þyrlusveitin staðið í stórræðum. Ekki var hægt að kalla út björgunarþyrluna þegar alvarlegt slys varð í Þingvallavatni í gær út af kröfum um lágmarkshvíld áhafnar.

Landhelgisgæslan hefur bent á að einungis séu tvær þyrluáhafnir til taks rúmlega helming ársins. Fréttablaðið/Ernir

Miklar annir hafa verið hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar síðastliðna daga. Sveitin var virkjuð síðasta fimmtudagskvöld vegna tveggja ferðamanna sem leitað var á Vatnajökli. Ferðamennirnir, sem reyndust vera alvanir göngugarpar frá Rúmeníu, virkjuðu neyðarsendi þegar þeir lentu í snjóflóði og brugðu á það ráð að grafa sig í fönn. Var þeim bjargað stuttu síðar og komust heilir til byggða. Greint var frá málinu í kvöldfréttum stöðvar 2 í kvöld.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór þó ekki í loftið en áhöfn þyrlunnar var í viðbragðsstöðu. Að morgni föstudags var óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna alvarlegs atviks þegar eldur kviknaði í báti úti fyrir Tálknafirði.

Þyrlan var síðan aftur kölluð út á laugardagskvöldi þegar bátur tveggja manna fór á hliðina í Skagafirði en var snúið við þegar ljóst var að mennirnir væru heilir á húfi. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli rétt eftir klukkan tíu á laugardagskvöld. Þá um nóttina var aftur óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna manns sem fallið hafði í Ölfusá og var TF-GNÁ mætt til leitar laust fyrir klukkan hálf fimm að morgni. Þyrlan kom aftur til Reykjavíkur tæpum tveimur tímum síðar en þá var þyrlusveitin á mörkum hámarks vakttíma og uppfyllti þar með ekki lengur kröfur um lágmarkshvíld samkvæmt reglugerðum og öryggiskröfum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var þá strax um morguninn hafist handa við að útvega aðra þyrluvakt með því að kalla fólk úr fríi og tókst að fullmanna aðra vakt klukkan fjögur síðdegis.

Ekki unnt að kalla þyrluna út vegna lágmarks hvíldartíma

Laust eftir hádegi í gær óskaði Neyðarlínan eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna tveggja ferðamanna sem féllu í Þingvallavatn en þar sem vakthafandi þyrluáhöfn uppfyllti ekki lágmarks hvíldartíma var því miður ekki unnt að kalla þyrluna út. Ferðamennirnir tveir, karl og kona, létust skömmu síðar. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. 

Landhelgisgæslan hefur bent á að einungis séu tvær þyrluáhafnir til taks rúmlega helming ársins. Oftast tekst þó að manna tvær áhafnir en þegar annir eru miklar, líkt og síðustu daga hefur það gengið brösuglega. 

Landhelgisgæslan bindur því vonir við að fjármagn fáist á næsta ári svo hægt sé að fjölga um eina þyrluáhöfn. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Hnífstunguárás í Kópavogi

Innlent

Tafir vegna vöru­bíls sem fór á hliðina á Holta­vörðu­heiði

Innlent

Kolfinna: „Voðalega á ég flottan pabba“

Auglýsing

Nýjast

Földu sig á klósettinu: „Ég er mjög hræddur“

Nýr BMW 7 með risagrilli

Segist ekki hafa verið beittur þrýstingi í máli Gunnars Braga

„Nú þurfa menn bara að hugsa út fyrir boxið“

Enn ekki tekist að ná drengnum úr borholunni

Dóna­skapur að verða ekki við beiðnum þing­manna um fund

Auglýsing