Utanríkisráðuneytið veitir ekki leyfi til íslenskra fyrirtækja vegna útflutnings matvæla, Matvælastofnun sér um slík leyfi.
Þetta segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins vegna ummæla Kristjáns Loftssonar um að hann muni sigla með hvalaafurðir í gegnum Norður-Íshaf til Japan. Hins vegar þurfa íslensk fyrirtæki undanþágu frá margvíslegum refsiaðgerðum, enda hafsvæðið viðkvæmt eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Sigursteinn Másson fjölmiðlamaður hefur gagnrýnt að Kristján hyggist sigla í viðskiptum við rússneska kjarnorkuknúna ísbrjóta til að komast í gegn um íshafið á ófriðartímum þegar refsiaðgerðir eru í gangi.
„Þvingunaraðgerðir eru innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða,“ segir í svari ráðuneytisins.
„Ekki hafa verið veittar undanþágur frá þessum aðgerðum og utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um fyrirspurnir frá íslenskum fyrirtækjum um möguleika á aðstoð við flutninga af því tagi sem lýst er í fyrirspurn blaðsins,“ segir í svarinu.
Þá sé í gildi hafnbann gagnvart rússneskum skipum. Óheimilt sé að bjóða skipi skráðu undir fána Rússlands aðgang að höfnum á yfirráðasvæði Íslands.