Myndir af ó­þekkjan­legri Melaniu Trump for­seta­frú, í fylgd með eigin­manni sínum Donald Trump, hafa farið eins og eldur í sinu um net­heima. Fljót­lega komst sá orð­rómur á kreik að for­setinn ferðaðist með tví­fara Melaniu á við­burði sem hún vildi ekki mæta á sjálf.

Lýta­læknir telur þó mun ein­faldari út­skýring sé á málinu. Al­menningur sé ein­fald­lega ekki vanur því að sjá for­seta­frúnna brosa.

Bótox breyti svipbrigðum

Lýta­læknirinn Hussain Cheema segir fegrunar­að­gerðir setja veru­legt strik í reikninginn þegar fólk sem að stað­aldri virðist svip­laust noti and­lits­vöðvanna. Húð­fellingar í and­liti komi betur í ljós með breiðu brosi. „Vissar húð­fellingar birtast sem annars leyndust í hlut­lausri and­lits­stöðu,“ út­skýrir Cheema.

Þá geti lamandi efni á borð við bótox og fyllingar haft þau á­hrif að fólk virðist ó­líkt sjálfu sér þegar það brosir eða geiflar sig. „Þegar við brosum dragast vöðvar í neðri and­liti saman til að sýna brosið okkar. Þegar það gerist lyftast púðar eða fyllingar í kinnum og þrýstast að augunum og láta þau þannig virðast smærri.“

Cheema segir ekki ó­al­gengt að frægt fólk sem hefur farið í fegrunar­að­gerðir virðist ó­líkt sjálfum sér og sagðist ekki trúa því að önnur en Melania sjálf hafi sést á myndinni með Trump.