Ályktun sem felur í sér stuðning við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, var samþykkt á þingi stofnunarinnar í gær. Þingið, sem er venjulega haldið í Genf, fór fram á netinu vegna COVID-19 faraldursins.

Þar voru tillögur Bandaríkjanna og Ástralíu úr fyrri drögum um alþjóðlega rannsókn á hlut Kína í kórónuveirufaraldrinum teknar út og drög lögð að óháðri rannsókn.

Aðildarríki Evrópusambandsins studdu ályktunina í kjölfar yfirlýsinga Donalds Trump Bandaríkjaforseta um varanlega stöðvun á fjárveitingum Bandaríkjanna til stofnunarinnar.

„Ef WHO skuldbindur sig ekki til mikilla efnislegra úrbóta á næstu 30 dögum verður tímabundin stöðvun á fjármögnun Bandaríkjanna til WHO varanleg og munum við endurskoða aðild okkar,“ segir í bréfi til Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmanns WHO, sem Trump birti á Twitter á mánudag.

Trump gagnrýninn á viðbrögð WHO

Trump hefur verið mjög gagnrýninn á viðbrögð WHO við kórónuveirufaraldrinum. Stöðvuðu Bandaríkjamenn fjárveitingar til stofnunarinnar 14. apríl, en landið er stærsti fjárhagslegi bakhjarl stofnunarinnar. Hefur Trump sakað WHO um að hylma yfir með Kína sem hann segir bera mikla ábyrgð á faraldrinum.

Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, var harðorður í garð WHO á þinginu. „Við þurfum að vera hreinskilin með það að ein aðalástæða þess að heimsfaraldurinn fór úr böndunum var sú að þessi stofnun brást og útvegaði heiminum ekki þær upplýsingar sem á þurfti að halda, þau mistök hafa kostað mörg mannslíf,“ sagði Alex Azar.

Tími samstöðu

Virginie Battu-Henriksson, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, sagði að það þyrfti að komast að því hvernig veiran breiddist um heiminn, en nú væri ekki tíminn til að standa í ásökunum. „Þetta er tími samstöðu. Þetta er ekki rétti tíminn til að finna blóraböggla eða grafa undan marghliða samvinnu,“ sagði Battu-Henriksson.

Auk Evrópusambandsins studdi Kína við ályktunina. Sögðu talsmenn utanríkisráðuneytis Kína ályktunina ekki jafn hlaðna pólitík og fyrri drög hennar voru.

Xi Jinping, forseti Kína, tilkynnti á mánudag að Kínverjar myndu styðja önnur ríki um tæplega 300 milljarða króna til að takast á við afleiðingar COVID-19.

Alls hafa tæplega 320 þúsund manns á heimsvísu látið lífið af völdum veirunnar. Samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskóla hafa 4,8 milljónir smitast og 1,8 milljón náð sér að fullu.