Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir ekki tilefni til að slaka á sóttvarnaaðgerðum þegar faraldurinn er enn í vexti.

„Tíu til tuttugu smit á dag er einfaldlega of mikið. Ef við förum að slaka á núna þá gæti það endað með stórri bylgju. Í gær greindust 18 manns með kórónuveiruna, þar af voru sjö utan sóttkvíar sem sýnir okkur að veiran er enn þá úti í samfélaginu," sagði Svandís í viðtali við Vísi eftir fund í Ráðherrabústaðnum í hádeginu.

Núgildandi sóttvarnaaðgerðir hafa verið framlengdar til og með 9. desember næstkomandi.

„Okkur fannst rétt að framlengja um þennan tíma vegna þess að við erum að fara inn í jólamánuðinn og viljum sjá fram á að geta slakað á fyrir jól," segir Svandís.

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, frá 29. nóvember kemur fram að hafði hann áður gert ráð fyrir að hægt yrði að ráðast í varfærnar tilslakanir á gildandi sóttvarnalögum 2. desember og kynnt ákveðnar hugmyndir þar að lútandi fyrir ráðherra fyrir viku. Vegna aukinna smita hafi þær tillögur verið endurskoðaðar og sóttvarnalæknir ráðið geng því að slaka á sóttvörnum.

Svandís segir að meðal þeirra breytinga sem þau hafi unnið að í fyrri tillögum væri að leyfa tuttugu manns að koma saman, þá stóð til að rýmka takmarkanir í annarri verslun en mat- og lyfjaverslunum og einnig voru rýmkanir tengdar íþróttum og sundlaugum í vinnslu.

„Við teljum ekki tilefni til þess að ráðast í afléttanir þegar faraldurinn er í vexti, við viljum ekki fá aðra bylgju á þessum árstíma."

Hún segir jafnframt að til standi að ráðast í staðbundnar aðgerðir.

„Við höfum verið að skoða það, staðan er þannig núna á landsvísu að faraldurinn er á rauðu svæði en okkur þykir algjörlega ástæða til að skoða þetta eins og við gerðum í haust," segir Svandís Svavarsdóttir.