Þórunn Rakel Gylfadóttir rithöfundur rak sig á mörg horn þegar hún kynnti skáld­sögu sína fyrir kennurum í efri bekkjum grunn­skóla. Á­huginn og þörfin á nýju efni var til staðar en innan skólana skorti pening til bóka­kaupa.

Rakel, eins og hún er yfir­leitt kölluð, kennir skapandi skrif við Haga­skóla og hefur orðið vör við fjáreklu í grunn­skólum í gegnum eigið starf. Hún skrifaði skáldsögu fyrir ungmenni sem heitir Akam, ég og Annika sem gefin var út af forlaginu Angústúru.

Eftir sam­töl við um hundrað skóla og nokkuð af skóla­­bóka­­söfnum gat hún ekki lengur setið á sér og á­kvað að opna á um­­ræðuna um þetta mál. Svörin stóðu ekki á sér og hún hefur fengið mikil við­brögð og deilingar á færslu sem hún setti í dag á Face­book-hópinn Skóla­þróunar­s­pallið.

Bóka­fá­tækt og fá­tæktar­skömm innan grunn­skólanna

„Það má segja að ég sé bara svona dæmi­saga sem endur­spegli þessa bóka­fá­tækt innan grunn­skólanna, eins og ég kalla þetta,“ segir Rakel í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún skrifaði ný­lega skáld­sögu fyrir ung­menni sem gefin var út af for­laginu Angústúru og heitir Akam, ég og Annika.

„Ég fékk bókina yfir­lesna af ís­lensku­kennurum sem sögðu þetta vera sögu sem vantaði inn í skólana, þetta væri bók sem skólarnir ættu að kaupa,“ segir Rakel. „Þannig að áður en bókin var gefin út þá sendi ég hand­ritið á nokkra skóla og bauð ís­lensku­kennurum að lesa hana.“

Rakel vissi að það væri skortur á lestrar­efni innan skólanna og hún fékk oft mjög góðar við­tökur. „En svo þegar átti að fara að sam­þykkja að kaupa bekkjar­sett þá kom babb í bátinn,“ segir hún. Þá voru ekki til peningar fyrir bóka­kaupum. „Fyrir vikið eru skólarnir að vinna með á­gætis bækur en ekki endi­lega bækur sem höfða til ung­linga í dag, vegna fjáreklu innan skólanna,“ segir Rakel.

Rakel hafði á til­finningunni að stundum væri erfitt fyrir þá sem svöruðu henni að viður­kenna að það vantaði hrein­lega peninga til bóka­kaupa í skólanum þeirra. „Þannig að ég vil segja að það sé fá­tæktar­­skömm innan grunn­­skólanna,“ segir hún.

Langir bið­listar á bóka­söfnum eftir bestu bókunum

Eftir að hafa rekið sig á að erfitt geti verið að selja eina bók á skóla­bóka­söfnin, gerði hún sér enn betur grein fyrir al­var­leika málsins í sumum skólum. „ Í ein­hverjum til­fellum mátti skóla­bóka­safnið ekki kaupa eina einustu bók fyrir börnin í skólanum,“ segir hún. „ Ég fylltist hryggð, þegar ég skynjaði hve von­leysið er mikið í sumum skólum.“

„Ég hugsaði að nú yrði ég að tjá mig um þetta mál því þetta snerist ekki lengur um bókina mína heldur tungumál sem berst fyrir tilveru sinni. Hvernig eiga langir bið­listar eftir bestu bókunum að fara að fara saman við þá baráttu, hvað þá ef þær eru ekki einu sinni keyptar inn á söfnin vegna fjár­skorts. Þetta skýtur mjög skökku við,“ segir Rakel.

Rakel fékk á­samt fleirum styrk frá Rann­ís til að skrifa létt­lestrar­bók og verk­efna­hefti en óttast eftir reynslu sína að skólarnir hafi ekki efni á að kaupa þær bækur.

„Ég ann þessu tungu­máli og ég vil koma til móts við inn­flytj­endur og krakka með tak­markaðan mál­skilning, þess vegna er ég að leggja þetta á mig,“ segir Rakel.

Grunn­skóla­kennarir vanir að bjarga málunum

Rakel segist hafa frétt frá einum bóka­­safns­­fræðingi að í tveimur skólum hafi bóka­safnið verið fært fram á gang vegna hús­­næðis­eklu. „Þetta minnir á Land­spítalann, svei mér þá, bóka­söfn ættu að vera eins og hof, svona griða­­staður fyrir þessa krakka og í staðinn fyrir að hlúa að þeirri hug­mynd þá er þeim út­hýst úr stofunum og fram á gang.“

„Þetta brennur á mjög mörgum en ég skynja mikið von­leysi meðal grunn­­skóla­­kennara,“ segir Rakel. „Skólarnir eru mörgum sem annað heimili og kennarar lenda oft í þeirri stöðu að þurfa að bjarga málum með litlar vistir. Mygla í skólum, tak­­mörkuð gögn, svo ekki sé talað um co­vid, þeim er gert að sýna enda­lausa að­lögunar­hæfni. Ég hef á til­finningunni að kennarar séu farnir að sætta sig við að þurfa alltaf að bjarga málum sama hvað gangi á og þá er hætta á að verða með­virkur með ó­skil­virkni, fjár­svelti og mikilli til­ætlunar­semi."

Hér fyrir neðan má lesa Facebook-færslu Rakelar:

Bókafátækt í grunnskólum

Ég hef all lengi beðið með að tjá mig um fátækt og fátæktarskömm í íslenskum grunnskólum en nú læt ég vaða. Ætla að reyna að vera kjarnyrt og stuttorð þótt mér liggi mikið á hjarta.

Ég heiti Þórunn Rakel Gylfadóttir, hef aðallega starfað sem sjúkraþjálfari, grunnskólakennari og frá því 1.október má ég titla mig sem rithöfund. Ég er höfundur bókar sem heitir Akam, ég og Annika og er gefin út hjá bókaforlaginu Angústúru. Ég stunda líka meistaranám í ritlist við HÍ.

Örlítið að undanfara þessara skrifa. Við yfirlestur handrits míns bentu mér tveir íslenskukennarar á að bókin mín ætti heima innan íslenskra grunnskóla. Þá vaknaði sú hugmynd að semja líka léttlestrarbók og í framhaldinu fékkst til þess styrkur hjá Rannís upp á tvær milljónir. Auk þess fékk ég 600.000 kr styrk frá Hagþenki til samningar verkefnabókar. Bækurnar mun ég semja með fleiri fagmenntuðum konum svo færa megi tungumálið okkar nær þeim sem vilja bæta málskilning sinn, til dæmis þeirra sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Mikið var þetta spennandi!

Reynum að láta hér liggja á milli hluta hvort bókin mín sé góð eða ekki. Sitt má hverjum sýnast. En þar sem ég hafði trú á henni og vissi að ekki væri um auðugan garð að gresja í unglingabókmenntum á Íslandi ákvað ég að kynna bókina mína meðal íslenskukennara. Viðbrögðin voru á flestum stöðum jákvæð, margir kennarar vildu endurnýja svokölluð bekkjarsett. Tjáðu mér að þótt verið væri að lesa góðar bækur væru þær margar komnar til ára sinna og skrifaðar fyrir fullorðna. En því miður væru ekki til peningar í skólanum til bókakaupa. Kannski á næsta ári, eða þarnæsta. Til hamingju með bókina og gangi þér vel?

Ha?

Ég átti bágt með að trúa þessu og þar sem ég er frekar þrautseig manneskja hélt ég áfram að skrifa og hringja. Til að gera langa sögu stutta þá hef ég verið í sambandi við um 100 skóla. Ég hef setið fund hjá sérfræðingum MMS, ég hef heimsótt fund bókasafnsfræðinga, ég hef vakið athygli Lilju Alfreðsdóttur á fjáreklu til bókakaupa, ég hef talað við sviðsstjóra hjá Menntamálaráðuneytinu. Ég hef rætt þetta við hlaupafélaga minn, Katrínu Jakobsdóttur.

Í einfeldni minni hélt ég að það væri nóg að benda þessu góða fólki á hver staðan væri. En svo er ekki. Í þar síðustu viku fékk ég fleiri svör og þegar þrír bókaverðir í bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu svöruðu því til að þeir mættu ekki kaupa eina einustu bók á bókasafn skólans fyrir jól, féllust mér hendur. Ég hreinlega fylltist hryggð yfir fátækt og fátæktarskömm í íslenskum grunnskólum.

Hvernig í fjandanum má það vera að ekki sé úthlutað nógum peningum til bókakaupa á frjálsum markaði til grunnskóla landsins? Ég veit að kennarar geta fengið eins margar bækur og þeir vilja frá MMS en það er ekki nóg því þar er afskaplega takmarkað úrval af skáldverkum. Á sama tíma og íslensk tunga á undir högg að sækja eru íslenskir grunnskólar sveltir þegar kemur að bókakaupum á almennum markaði.

Málið snýst ekki lengur fyrir mig um að selja eina bók sem sennilega verður flestum gleymd eftir fáein ár. Málið snýst um íslenska tungu og framtíð hennar.

Hvernig má það vera að í landi þar sem þjóðarleiðtogar státa sig af bókmenntum sínum, sköpunarkrafti og velferð þegna sinna, haldi bókum frá börnum án þess að skammast sín?