Fyrr­verandi borgar­full­trúinn og bar­áttu­konan Sól­ey Tómas­dóttir, gerir grein Stefáns Ólafs­sonar, sér­fræðings hjá Eflingu og prófessor í fé­lags­fræði við HÍ, að um­ræðu­efni í pistli sem hún birti á heima­síðu sinni Just Consulting.

Í grein Stefáns, sem birtist á Vísi í vikunni, kemur hann Sól­veigu Önnu Jóns­dóttur, for­manni Eflingar, til varnar.

„Margir finna að því að Sól­veig Anna sé ó­fáguð í tals­máta og ó­venju bein­skeytt og stundum hvöss. Í karla­heimi for­tíðar hefði sjálf­sagt verið sagt um þá sem þannig tjáðu sig að þeir töluðu sjó­manna­mál eins og Guð­mundur Jaki – og naut það gjarnan virðingar. En bein­skeyttur og gagn­rýninn tals­máti Sól­veigar Önnu er stundum notaður sem á­tylla til að telja hana ekki húsum hæfa. Þetta er notað gegn henni og senni­lega meira en ef um karl væri að ræða,“ skrifar Stefán.

Tals­máti hennar komi til þar sem hún sé á­kveðin og öflug um­breytingar­kona, sem kalli á gagn­rýni og hispurs­leysi í fram­setningu, til þess að ná árangri í um­breytingum þegar til­efni til gagn­rýni og brýninga séu næg.

Sól­ey segir grein Stefáns at­hyglis­verða fyrir margar sakir. Sam­kvæmt honum eigi hún að styðja Sól­veigu Önnu þar sem hún sé öflug tals­kona lág­launa­kvenna og ekki láta það þvælast fyrir sér þó hún geti verið bein­skeytt og hvöss. Að mati Stefáns naut slíkt virðingar í karlaheimi í tíð Guðmundar Jaka.

Hún tekur undir með Stefáni og segir Sól­veigu Önnu gagn­rýnda oftar, harðar og per­sónu­legar en karl­kyns for­verar hennar og sam­starfs­menn – það eigi við um allar konur sem taki sér pláss í karl­lægum geirum. Það sé ó­sann­gjarnt og taki á. Hins vegar séu skrif Stefáns þó mikil ein­földun á raun­veru­leikanum.

„Femín­istar eru nefni­lega ekki einn hópur með eina skoðun. Feminísk hug­mynda­fræði er flókin og marg­þætt. Hún býður upp á sjónar­horn, bar­áttu­að­ferðir og leiðir. Þó femín­istar eigi það sam­eigin­lega mark­mið að upp­ræta karl­lægt valda­kerfi, þá er ekki hægt að krefja alla femín­ista um að finnast eitt­hvað, beita sér fyrir ein­hverju eða styðja ein­hverja,“ skrifar Sól­ey.

Krafa Stefáns sé í anda karla­heims for­tíðar. Guð­mundur Jaki hafi verið verka­lýðs­for­kólfur á síðari hluta síðustu aldar. Þá hafi konur verið töff ef þær höguðu sér eins og karlar.

„Þá þótti kannski í lagi að þagga niður í og út­hýsa fólki sem spurði gagn­rýnna spurninga á vinnu­staðnum og þá þótti kannski í lagi að gamall karl segði femín­istum hvað þeir ættu að gera. Ekki í dag,“ skrifar hún.

Þó hún telji mikil­vægt að standa með karl­lægum geirum geri hún það ekki skilyrðislaust.

„Ég er ekki til í þá ein­stak­lings­dýrkun sem Stefán leggur til. Mér hugnast illa karl­læg á­taka­sækni og líður ekki vel að sjá verka­lýðs­fé­lög haga sér með sama hætti og tals­menn at­vinnu­rek­enda. Og talandi um það, þá finnst mér fram­koma Sól­veigar Önnu við sam­starfs­fólk sitt hjá Eflingu vera ó­boð­leg. Það er því af mál­efna­legum á­stæðum sem ég hef á­kveðið að verða ekki við á­kalli Stefáns,“ skrifar Sól­ey.

Þetta þýði þó ekki að hún standi ekki með lág­launa­fólki. Tíma­bært sé að endur­skoða kjara­módel sam­fé­lagsins og draga úr ó­jöfnuði í alla staði.

„Þess vegna vil ég standa með verka­lýðs­fé­lögunum sem reisa kröfur og grípa til að­gerða. Ég lít ekki á verka­lýðs­fé­lögin sem einn sterkan leið­toga annars vegar og um­bjóð­endur hins vegar eins og Stefán, heldur sem vett­vang þar sem öllu fé­lags­fólki á að geta liðið vel og finnur bar­áttu sinni far­veg í sam­stöðu. Ég vona að einn góðan veður­dag beri Efling gæfu til þess,“ skrifar Sól­ey.