Bjarn­heiður Halls­dóttir, for­maður Sam­taka ferða­þjónustunnar, segist aldrei hafa verið rukkuð um krana­vatn á Ís­landi. Hún segir þó að það sé undir hverjum rekstrar­aðila komið að á­kveða slíkt.

Frétta­blaðið sló á þráðinn til Bjarn­heiðar en Hring­braut greinir í dag frá fjörugum um­ræðum inni á Face­book hópnum Bak­land ferða­þjónustunnar. Þar greinir kona ein frá því að ó­nefndur veitinga­staður úti á landi hafi ætlað að rukka hana um hundrað krónur fyrir vatns­glas. Konan hafði verslað mat fyrir rúmar 9000 krónur að eigin sögn.

Hún segist hafa af­þakkað glasið. „Ég lýsti yfir von­brigðum mínum með vatnið og sagði eig­andinn minn mér að hann þyrfti að gera þetta því annars kæmi fólk og settist og drykki bara vatn, reksturinn væri erfiður og fleira í þeim dúr. Svo var því bætt við að fólk væri látið kaupa drykki á öllum öðrum kaffi­húsum,“ segir hún og bætir við að það sé reyndar ekki hennar reynsla.

Ó­hætt er að segja að fjörugar um­ræður hafi skapast inni á hópnum. Ein­hverjir benda á að um sé að ræða þjónustu og því rétt­lætan­legt að rukka fyrir það. Segjast ýmsir aftur á móti aldrei hafa lent í því sama, að vera rukkaðir fyrir vatn á kaffi­húsum. Bjarn­heiður tekur í svipaðan streng í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Ég fer mjög oft á veitinga­staði vítt og breitt um landið og hef gert í tugi ára en hef aldrei upp­lifað þetta,“ segir Bjarn­heiður. „Þetta er náttúru­lega þjónusta svo sem eins og sumir eru að benda á þarna en þetta hefur ekki verið til siðs á Ís­landi.“

Hún segir að­spurð að slíkt hafi ekki verið til um­ræðu innan Sam­taka ferða­þjónustunnar. „Þannig ég reikna með að þetta sé undan­tekningin frekar en reglan,“ segir Bjarn­heiður.

Að­spurð segir hún Sam­tök ferða­þjónustunnar ekki í að­stöðu til að gefa út til­mæli gegn slíku. „En eins og ég segi að þá hefur þetta verið svona okkar aðals­merki að bera þetta góða vatn á borð fyrir gesti okkar án þess að krefjast endur­gjalds fyrir, það hefur verið þannig og gestum okkar þótt gott.“