„Auðvitað er það hluti af okkar friðhelgi að okkar orðspori sé ekki hnekkt, saklaus uns sekt er sönnuð, en það eru líka mannréttindi að fá að tjá sig. Það skiptir máli hvernig maður tjáir sig, það er ekki það sama að vara aðra við og að dreifa sögum,“ sagði Helga Baldvins Bjargar, lögfræðingur og aðgerðasinni, íBítinu á Bylgunni í morgun þar sem hún ræddi um ásakanir á samfélagsmiðlum í ljósi máls Ingólfs Þórarinssonar. Líkt og greint var frá fyrr í dag mun hann ekki koma fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár í kjölfar ásakana.

Í einföldustu útgáfu væru samfélagsmiðlar ekki rétti farvegurinn fyrir ásakanir um kynferðisbrot, það sé réttarkerfið, Helga segir að aftur á móti sé réttarkerfið gallað. „Réttarkerfið er stórgallað og það er að bregðast brotaþolum, þeim fáu sem leita réttar síns fá yfirleitt ekki áheyrn. Annar hver kynferðisbrotadómur er svo mildaður í Landsrétti, þetta tekur svo langan tíma í kerfinu,“ segir Helga. Vandinn liggi bæði í tíma, manneklu í kerfinu og sönnunarbyrði. „Þannig að hvað eiga brotaþolar að gera?“

Helga segir að hægt sé að gera margar breytingar á réttarkerfinu, vísar hún þar í rannsóknir og tillögur Hildar Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðings. Hér má lesa viðtal við Hildi Fjólu þar sem hún fer yfir tillögur sínar.

Helga segir að lítið hafi verið gert við tillögur Hildar. Hún veltir upp möguleikanum á að gera refsirammann minni í kynferðisbrotamálum, slíkt gæti mögulega þýtt fleiri dóma. „Ég velti upp alls konar möguleikum því ég veit að sem samfélag erum við að bregðast brotaþolum umfram allt. Ekki bara það að málin þeirra fá ekki framgang heldur er verið að kæra þá hægri vinstri fyrir meiðyrði fyrir að tjá sig um eigin reynslu eða reynslu vinkvenna sinna.“

Varðandi mál Ingólfs þá er hann ekki nafngreindur í frásögnunum sem birtar eru á samfélagsmiðlum. Engum dylst þó um hvern er verið að ræða. Helga telur að það gæti orðið erfitt ef hann ætlar með slík meiðyrðamál fyrir dómstóla.

Helga segir það einfalt hvað eigi að gera í kjölfar ásakana um að hafa farið yfir mörk, tekur hún sjálfa sig sem dæmi. „Þá vil ég að þú viðurkennir það og biðjist afsökunar. Ég vil ekki að þú farir í vörn, gaslýsir mig um að þetta sé ekki þín upplifun,“ sagði hún. Það þýði ekki að gerandinn eigi aldrei aftur að fá vinnu. „Við eigum öll mannréttindi. Rétta leiðin er ekki útskúfun úr samfélaginu. Það er þetta vonleysi þegar konur eru ítrekað að lenda í brotum, láta vita af brotum, en það gerist ekki neitt.“