„Ég held að þetta komi engum á óvart. Það er búið að blása hressilega um ríkisstjórnina,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut og Fréttablaðið, aðspurð um niðurstöður nýrrar könnunar sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið. Samkvæmt könnuninni er ríkisstjórnin fallin.

Katrín segir að hún leggi áherslu á að fá niðurstöðu hvað varðar útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka og að hún dragi þá ályktun að salan sé ein stærsta ástæða breytts fylgis. Hún segist þó þekkja það vel að fylgi breytist.

Spurð hvort hún sjái tilefni til að endurskoða ríkisstjórnarsamstarfið segist hún ekki sjá ástæðu til þess.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tekur í sama streng og Katrín og segir ekkert koma á óvart við þessar niðurstöður og að niðurstaðan endurspegli það sem er í gangi í samfélaginu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir að auðvitað vilji hann sjá meira fylgi og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir að 18 prósenta fylgi sé ekki það sem þau vilji sjá út úr kosningum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það opnist möguleikar við þetta og að þetta sé það sem gerist þegar þjóðin sér að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hæfur til að stjórna. Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, segir að flokkur hennar hafi alltaf staðið fastur gegn spillingu og að þau hafi ávallt talað fyrir gagnsæi.

Hægt er að horfa á viðtalið hér að neðan í heild sinni en þar er einnig talað við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.