„Þær hefðu getað verið betri,“ segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, um smit­tölur gær­dagsins en alls greindust 17 með kórónu­veiruna innan­lands og voru af þeim átta ekki í sótt­kví.

Að sögn Þór­ólfs er smitrakning búin að tengja sex af þessum átta við fyrri hóp­sýkingar en ekki hefur tekist að tengja hina tvo við fyrri sýkingar.

„Við eigum eftir að skoða það betur. Það getur stundum tekið að­eins lengri tíma að fá rakninguna góða. Eins út frá rað­greiningunni getum við séð betri tengsl, en eins og staðan er núna sjáum við ekki aug­ljós tengsl við fyrri hóp­sýkingar. En hinir sex tengjast fyrri hóp­smitum sem komu þó ekki upp í rakningunni,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að það séu ekki margir sem bætast við hóp þeirra sem eru í sótt­kví, en að á­stæða þess að þau hafi ekki verið í sótt­kví við greiningu sem greindust í gær sé að þau hafi ekki komið til tals í rakningu hjá þeim sem voru þegar greind.

Enginn greindist í slembiúrtaki ÍE

Spurður hvort að smitin hafi greinst í slembi­úr­taki Ís­lenskrar erfða­greiningar segir Þór­ólfur svo ekki vera og að það hafi enginn greinst í því slembi­úr­taki.

Spurður um stöðuna eins og hún blasir við honum í dag segir hann það ljóst að veiran er enn þarna úti.

„Við getum sagt að veiran er þarna úti í sam­fé­laginu og það eru örugg­lega ein­hverjir sem eru með lítil eða engin ein­kenni og geta verið að smita út frá sér, þannig veiran er þarna og getur blossað upp hvar sem er og þess vegna höldum við á­fram að biðla til fólks að fara eftir öllum þeim reglum og leið­beiningum sem við höfum verið að hamra á síðast­liðið eitt og hálft ár,“ segir Þór­ólfur og í­trekar mikil­vægi þess að forðast hópa­myndanir og blandanir á milli hópa eins og mögu­legt er.

„Það er lykillinn að því að ná árangri. Flestir fara eftir þessu en það er nóg að lítill hluti geri það ekki til að við­halda þessu.“

Hópsýkingin teygi anga sína víðar

Spurður hvort að honum finnist hafa gengið vel að ná utan um hóp­sýkinguna á Jörfa segir Þór­ólfur að hann geti ekki sagt að það sé búið að ná utan um hana því hún teygi anga sína víðar.

„Við erum að greina fleiri en erum alla­vega ekki að sjá mjög mikla upp­sveiflu. En þetta er oft breyti­legt á milli daga þannig það getur brugðið til beggja vona með það hvort að far­aldurinn fari upp eða niður,“ segir Þór­ólfur.

Ertu sáttur við lögin sem voru sam­þykkt í nótt?

„Já, mér sýnist þetta vera gott svar við því á­kalli sem ég hef komið með um að við getum skyldað fólk sem er að koma frá á­hættu­svæðum og hafa sýnt sig að vera með smit og kannski ekki farið eftir reglum um sótt­kví, að við getum reynt að hafa betra eftir­lit með því og þarna í lögunum er sett að sótt­varna­læknir eigi að meta hvaða mörk eigi að miða við og hvernig eigi að skil­greina á­hættu­svæði og það er bæði hægt að gera það út frá tölum um ný­gengi en eins er hægt að miða við hvaða af­brigði er að ganga á svæðum. Þannig það er tölu­verður sveigjan­leiki í þessu sem að ég er á­nægður með,“ segir Þór­ólfur.

Gerir nýtt minnisblað á sumardaginn fyrsta

Það er sumar­dagurinn fyrsti í dag. Ertu bjart­sýnn, í dag, fyrir sumarið?

„Ég er ekki farinn að hugsa svo langt, ég er bara að hugsa um næstu daga hvernig þetta þróast. Auð­vitað er vinnan okkar núna að fara í að fram­fylgja þessum lögum um landa­mærin og svo að reyna að halda þessu sem mest niðri innan­lands,“ segir Þór­ólfur.

Ertu með sumar­leg plön í dag?

„Nei, þau eru nú ekki sumar­legri en það að ég þarf að senda ráð­herra minnis­blað um reglu­gerð fyrir landa­mærin. Það er nú svo sem heldur ekkert sumar­veður úti,“ bætir hann við