Dómar fimm pólskra karlmanna voru birtir í Lögbirtingarblaðinu í dag þar sem ekki hefur tekist að birta þeim dóminn. Mennirnir fengu allir dóm fyrir innflutning á OxyContin en þeir komu allir til landsins í mars og apríl síðastliðnum.

RÚV greindi fyrst frá.

Fimmmenningarnir komu til landsins með samanlagt rúmlega fjögur þúsund töflur af OxyContin en efnin höfðu mennirnir falið með mismunandi hætti.

Földu töflurnar með ýmsum hætti

Töflurnar fundust ýmist í nærbuxum, kaffipokum, sælgætispoka og raksápubrúsa mannanna samkvæmt dómunum á vef Héraðsdóms Reykjaness frá 29. september síðastliðnum.

Aðeins tveir menn komu til landsins með sama flugi frá Gdansk í Póllandi þann 25. mars.

Annar þeirra hafði falið 851 töflu inni í MIMI sælgætispoka sem hann var með meðferðis við komuna til landsins og hinn hafði falið 839 töflur innanklæða í nærbuxum sem hann klæddist við komuna til landsins.

Þriðji maðurinn kom til landsins frá Gdansk í Póllandi 2. apríl en sá hafði falið 857 töflur inni í raksápubrúsa í farangurstösku sinni. Fjórði maðurinn kom til landsins frá Katowice í Póllandi 4. apríl en hann hafði falið 848 töflur inni í tveimur kaffibaunapokum sem voru í farangurstösku hans.

Fimmti og síðasti maðurinn kom til landsins 16. apríl frá Gdansk í Póllandi en hann reyndist vera með 731 töflu af OxyContin ásamt 61 töflu af ávana- og fíknilyfinu Contalgin. Hann hafði falið efnin í nærbuxum sínum.

Enginn mætti fyrir dóm

Mennirnir fimm voru allir stöðvaðir í tollhliðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem efnin fundust. Enginn þeirra mætti fyrir dóm né boðuðu forföll.

Dómari krafðist upptöku á öllum efnunum ásamt því að dæma fimmmenningana til nokkurra mánaða fangelsisvistar.