Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi í dag að ekki yrði tekið við vottorðum frá ferðamönnum nema ef um íslensk vottorð er að ræða, til að mynda frá Íslendingum sem hafa farið erlendis og komið aftur.

„Þetta er nokkur stefnubreyting frá fyrri yfirlýsingum frá mér,“ sagði Þórólfur um málið en upprunalega var sagt að ferðamenn hefðu val um að fara í skimun eða að skila inn vottorði frá og með 15. júní. „Eftir nánari umræður og umhugsun þá sáum við fram á það að þetta yrði mjög erfitt í framkvæmd á landamærastöðvum hér og gæti gert málið snúnara og erfiðara.“

Að sögn Þórólfs var einnig litið til þess að enn sem komið er séu ekki til nein alþjóða vottorð um veikindi né mótefnamælingar og því hafi verið ákveðið að bíða með það. „Eins og annað í þessu ferli er það til sífelldrar endurskoðunar,“ bætti Þórólfur þó við.

Líkt og áður hefur verið greint frá geta ferðamenn farið í skimun við komuna til landsins en Þórólfur sagði ýmsar gagnrýnisraddir hafa komið fram. „Ég tel rétt að menn muni það að þetta er tilraunaverkefni, við erum að afla nýrrar vitneskju og upplýsinga sem munu leiðbeina okkur í áframhaldinu,“ sagði Þórólfur.

„Þetta ferli verður í sífelldri endurskoðun þannig að hægt verði að breyta áherslum skimunarinnar með vaxandi reynslu og vitneskju og hún fæst einungis með því að fara af stað,“ sagði Þórólfur og bætti við að mögulega myndu niðurstöður hjálpa til við að aflétta ferðatakmörkunum.

Lágmarka áhættu

Þá minntist Þórólfur einnig á kostnaðinn við sýnatökuna en hann sagði að fjármunirnir sem færu í það væru fjárfestirn til framtíðar. „Með þessum aðgerðum er í raun og veru verið að gera allt sem hægt er til að lágmarka áhættuna á því að veiran komi aftur inn í íslenskt samfélag en á sama tíma erum við að erum við að reyna að opna hér upp landamærin og og hjálpa atvinnulífinu að fara að snúast aftur.“

Kostnaðurinn við hvert sýni verður fimmtán þúsund krónur, sem ferðamennirnir greiða sjálfir, en fyrstu tvær vikurnar verður gjaldið fellt niður. Þá mun Íslensk erfðagreining aðstoða við skimun og greiningu á sýnum til að byrja með.

Að sögn Þórólfs munu Íslensk erfðagreining og veirufræðideild Landspítala geta tekið við allt að 2000 sýnum á sólarhring og verður ekki hægt að koma með fleiri farþega heldur en rannsóknir á sýnum muni áorka.

Fréttin hefur verið uppfærð.