Áfram er hættustig á Seyðisfirði og rýmingar í gildi vegna hættu á aurskriðum. Enn er verið að kanna og meta hversu stöðugar hlíðarnar eru fyrir ofan rýmd hús og á meðan því stendur þykir ekki óhætt að aflétta frekari rýmingu. Þá er unnið að lagfæringu innviða á svæðinu.

Að sögn almannavarna og lögreglu er mat á rýmingarþörf áfram í gangi og má búast við frekari upplýsingum síðar í dag.

Ástandið að lagast

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Seyðisfirði, segir í samtali við Fréttablaðið að til greina komi að rýmingunni verði aflétt að hluta síðar í dag.

Hann segir ástandið hafi tekið að lagast mjög hratt eftir að rigningunni slotaði á Seyðisfirði og að þróunin sé nú áfram á réttri leið.

„Það er bara spurning hversu hratt hvað það gerist, að þetta þyki vera orðið það tryggt að einhverjir íbúar geti farið heim aftur sem eru núna á rýmingarsvæði.“

276 íbúar ekki fengið að fara heim

Í gær var 305 íbúum Seyðisfjarðar heimilað að fara heim og hafa 276 ekki enn fengið að snúa aftur.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi funduðu með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn nú fyrir hádegi. Auk þess sátu fundinn fulltrúar frá viðbragðsaðilum, sveitarfélagi og stofnunum.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum og lögreglu að hlíðin ofan rýmingasvæðisins verði endurmæld í dag, sprungur kortlagðar og yfirlitsmyndir teknar. Verða þessi gögn höfð til hliðsjónar þegar hætta á frekari skriðuföllum verður metin.

RARIK vinnur að því að koma rafmagni á sem víðast og vegna bilunar í hitaveitu er verið að koma fyrir rafmagnsofnum í þau hús sem hafa ekki hitaveitu.

Núgildandi rýmingarsvæði á Seyðisfirði.
Mynd/Lögreglan

Aðgerðastjórn almannavarna biður íbúa á rýmingarsvæðum sem hafa hug á að líta eftir húsum sínum í dag til að bjarga verðmætum eða ná í nauðsynjar beðnir um að gefa sig fram við vettvangsstjórn á Seyðisfirði og fá leiðbeiningar og fylgd inn á rýmingarsvæði.

Þær götur sem þar um ræðir eru Múlavegur, Botnahlíð, Brattahlíð, Túngata, Miðtún, Baugsvegur, Brekkuvegur, Austurvegur frá 22 til 40B, Hafnargata 2A, Brúarleira, Lónsleira. Hús við aðrar götur á rýmingarsvæði eru enn lokuð og ekki hægt að komast í þau að sinni.

Fréttin var síðast uppfærð klukkna 13:20.

Enn er verið að kanna og meta stöðugleika ofan við rýmd hús á Seyðisfirði auk þess sem unnið er að lagfæringu innviða. Á...

Posted by Lögreglan á Austurlandi on Monday, December 21, 2020