Rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, leiddi ekki í ljós nein sönnunargögn sem sýndu fram á óeðlileg og ólögmæt samskipti framboðs Trumps við rússnesk stjórnvöld fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu sem Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari, hefur nú skilað af sér.

Mueller hefur undanfarin tvö ár rannsakað ásakanir á hendur Trump um tengsl hans við rússnesk stjórnvöld í aðdraganda kosninganna. Alls hafa 34 verið ákærðir, þar af sex úr herbúðum Trumps, auk Rússa og ýmissa fyrirtækja.

Dómsmálaráðherran William P. Barr, hefur látið þinginu í té helstu niðurstöður Muellers, í formi fjögurra blaðsíðna útdráttar. „Skýrslan sýnir ekki að forsetinn hafi framið glæp, en hún hreinsar hann heldur ekki,“ sagði Barr um skýrsluna.