Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist telja að fólk hafi ef til vill farið að slaka of mikið á eftir að sóttvarnayfirvöld tilkynntu um mögulegar tilslakanir fyrr í mánuðinum en þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann sagðist ekki telja að svigrúm væri fyrir tilslakanir fyrir áramót.
Kári sagði í samtali við Stöð 2 að hann hafi áhyggjur af stöðu faraldursins hér á landi en hann segir það ganga verr að ná tökum á faraldrinum nú heldur en í vor. Þá segir hann að fólk eigi nú erfiðara með að fara að fyrirmælum sóttvarnayfirvalda og að yfirvöldum hafi mistekist að hemja væntingar landsmanna.
„Eins og þegar þau sögðu fyrir tveimur vikum að nú ætluðu þau að létta á aðgerðum eftir viku. Um leið og þú segir það þá tekur fólk því sem svo að hægt sé að vera kærulausari en áður,“ sagði Kári og bætti við að það væri mikilvægt að yfirvöld spái ekki í framtíðina með þessu móti.
„Þú átt ekki að segja fólki að þú munir kannski létta á aðgerðum eftir einhvern smá tíma. Mér finnst þetta vera mesti veikleikinn í aðgerðum sóttvarnayfirvalda, sem hafa að öðru leyti staðið sig afskaplega vel. Við getum ekki spáð fyrir um hvað gerist næst og við eigum ekki að reyna það,“ sagði Kári.
Ræða málin eftir helgi
Ríkisstjórnin mun ræða nánar um sóttvarnaraðgerðir eftir helgi í en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í gær að beðið hafi verið með að ræða málin vegna stöðu faraldursins og fjölgun tilfella.
„Í ljósi þess að staðan á faraldrinum er ekki nógu góð, við erum að sjá fjölgun tilfella bæði í gær og í dag, þá veit ég að ráðherrann hyggst doka við fram yfir helgi að meta stöðuna áður en næsta ákvörðun verður tekin,“ sagði Katrín.
Núverandi sóttvarnaráðstafanir eru í gildi til 1. desember næstkomandi en tíu manna samkomubann er nú í gildi á landinu öllu. Síðastliðna daga hefur fjöldi greindra tilfella kórónaveirusmits fjölgað nokkuð en alls greindust 21 í gær, þar af voru átta utan sóttkvíar. Deginum þar áður greindust 20 með veiruna.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði fyrr í dag að ekki hafi tekist að rekja öll smit undanfarna daga og að það væri áhyggjuefni. Hann sagði bráðnauðsynlegt að fólk færi í skimun og veita smitrakningarteyminu sannar og góðar upplýsingar.