Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir ekki standa til að lengja opnunartíma neyðarskýla í Reykjavík líkt og hópur heimilislausra manna krafðist í setuverkfalli í gistiskýlinu á Granda í gær.
Neyðarskýli borgarinnar eru opin frá klukkan 17 á daginn þar til klukkan tíu næsta morgun. Mennirnir krefjast þess að skýlin séu opin á daginn eða að opnað verði úrræði með dagopnun. Þá vilja þeir einnig undanþáguopnun þegar veður er sérstaklega vont.
Heiða Björg segir áherslu borgarinnar þá að ná fólki í varanlegt húsnæði. Neyðarskýli séu ekki til þess gerð að fólk dvelji þar yfir langan tíma.
„Við viljum reyna að ná fólki í einhverja varanlegri búsetu og veita því einhverja aðra möguleika svo við höfum ekki verið að skoða það að hafa gistiskýlin meira opin,“ segir Heiða.
„Þetta er það sem að við höfum séð að aðrir eru að gera erlendis, við erum bara að læra og það er hvergi mælt með því að neyðarskýli sé opið allan sólarhringinn,“ segir hún.
„Við viljum frekar að fólk fái tækifæri til að eignast heimili,“ bætir hún við.
Þá segir Heiða að lagt hafi verið fjármagn í úrræði hjá Hjálpræðishernum þar sem heimilislausir geti komið á daginn og til dæmis þvegið þvott. Þá sé Samhjálp einnig veitt fjármagn fyrir sína starfsemi. „Við höfum tvöfaldað fjármagnið í þennan málaflokk svo ég er ekki sammála um að þetta strandi á fjármagni,“ segir Heiða.
„Þetta eru þeir þættir sem við leggjum áherslu á. Varanleg búseta og stuðningur þangað inn,“ segir hún. „Við reynum að standa við það að enginn þurfi að sofa úti og það er reynt að koma til móts við alla.“