„Við höfum ekki verið með augun á því að athuga hvort fólk ætti að vera í sóttkví, alla vega ekki hingað til,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um erlenda ferðamenn sem heimsótt hafa gosstöðvarnar í Geldingadölum.

Fjölmargir erlendir ferðamenn hafa verið við gosstöðvarnar, ferðamenn frá öllum heimshornum. Á þriðjudag voru þar til dæmis þrír ungir menn frá Filippseyjum, sem sögðu blaðamanni Fréttablaðsins að þeir hefðu komið sérstaklega til að upplifa gosið, sem hófst tæpum fjórum sólarhringum fyrr. Aðspurðir sögðust þeir hafa lokið sóttkví, sem á að vara í fimm daga eins og kunnugt er.

Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir tóku gildi á miðnætti, sem byggjast á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, vegna hópsýkinga innanlands að undanförnu, til að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar.

Hópsýkingarnar eru allar af völdum breska afbrigðisins, sem er sagt mun meira smitandi en flest önnur afbrigði veirunnar og veldur enn frekar alvarlegum veikindum. Landspítalinn var þannig færður yfir á neyðarstig í nótt.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að greindum smitum á landamærum hafi fjölgað. Suma daga hafa allt að tíu greinst með virk smit. Takmarkað eftirlit er með ferðamönnum sem koma hingað til lands og eiga að fara í sóttkví, en margir þeirra stoppa á Suðurstrandarvegi og ganga að gosstöðvunum. Úlfar lögreglustjóri segir lögreglumenn á vakt á Suðurstrandarvegi ekki geta spurt hvern einasta ferðamann hvort hann eigi að vera í sóttkví, áður en hann leggur af stað í gosgönguna. Hann viti ekki til þess að vandamál þessu tengd hafi komið upp við gosstöðvarnar.

Stemningin í brekkunni í Geldingadölum minnir óneitanlega á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og þótt flestir virðist reyna að viðhalda tveggja metra fjarlægð eru fáir með grímur, fyrir utan björgunarsveitarfólk sem hefur borið gasgrímur.