„Það komu ekki fram neinar nýjar upplýsingar sem breyta okkar afstöðu. Það voru allir sammála um að það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem skyldar Ísland til að leggja sæstreng,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Fimm gestir komu á fund nefndarinnar í gær til að ræða þriðja orkupakkann. Níu gestir til viðbótar koma á fund á mánudag.

Til snarpra orðaskipta kom á milli þingmanna og Arnars Þórs Jónssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, á fundinum.

Arnar Þór, líkt og aðrir sem tala gegn þriðja orkupakkanum, var þar í boði fulltrúa Miðflokksins. Hann sagði að með innleiðingu orkupakkans myndi Ísland veikja varnir sínar gagnvart þeim sem vilja leggja sæstreng. Sagði hann einnig „lágmarkskröfu að lög frá Alþingi byggi á staðreyndum en ekki spádómum“. Þessi orð fóru ekki vel í þingmenn.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar, segir framgöngu Arnars Þórs óboðlega. Hann hafi vænt þingmenn um að virða ekki stjórnarskrá, grafa undan fullveldi þjóðarinnar og dregið alvarlega í efa getu þingmanna til að taka upplýstar ákvarðanir.

„Við erum kjörnir fulltrúar og mér finnst þetta ekki endurspegla virðingu gagnvart löggjafarvaldinu. En þessi maður vinnur við að dæma eftir lögum sem við setjum,“ segir Rósa Björk. „Mér finnst alveg spurning, eftir þessa framkomu í dag og skrif hans að undanförnu, að velta upp hvort hann sé óhæfur til að dæma í málum sem snerta EES-samninginn og Mannréttindadómstól Evrópu, sem hann hefur

líka verið að tjá sig harkalega um.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir málflutning andstæðinga orkupakkans ekki sannfærandi. „Þetta er orðin yfirgengileg della.“ Röksemdafærsla þeirra sé í besta falli útúrsnúningar og dylgjur.

Áslaug Arna segir málið hafa oft komið fyrir þingið á síðustu tíu árum og nú sé verið að klára það.

„Það var klárað að mestu leyti í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs [Gunnlaugssonar] og Gunnars Braga [Sveinssonar], núna er eftir að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og breyta lögum um sjálfstæði Orkustofnunar. Annað er búið. Við erum búin að fá þær undanþágur og fyrirvara sem óskað var eftir. Það er ekkert í málinu sem er að hræðast,“ segir Áslaug Arna. Ekki komi til greina að hætta við innleiðinguna. „Við eigum ekki að nota öryggisventilinn sem EES-samningurinn býður upp á nema rík ástæða sé fyrir hendi.“

Undir það tekur Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, sem kom fyrir nefndina.

„Þeir sem eru mest að gagnrýna þriðja orkupakkann vilja meina að í þessu felist skylda til að leggja sæstreng eða heimila lögaðilum að leggja sæstreng. Hvað við ætlum að ná fram með því að synja upptöku er algjörlega óljóst,“ segir Margrét.

Varðandi umræðuna og andstöðu almennings segir Áslaug Arna það taka meiri tíma að útskýra afstöðu þeirra sem styðja málið en þeirra sem finna pakkanum allt til foráttu.

„Það er auðvelt að hræða fólk. Okkur er öllum annt um fullveldið okkar og auðlindirnar. Málið er auðvitað flókið og auðvelt að þæfa það, en við sem höfum sett okkur vandlega inn í málið, leitað til sérfræðinga, við erum fullviss um að það sé ekkert að hræðast.“

Víglína dregin milli frjálslyndra og íhaldssamra

„Ef samkomulagið við Miðflokkinn heldur, þá verður kosið um þetta á þingi í byrjun september, þá er málinu lokið. Það er skýr þingmeirihluti fyrir málinu, það veltur þó allt á því hvort samkomulagið haldi,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. „Það verður líklega mjög hávær umræða fram að því.“

Eiríkur segir málið geta reynst Sjálfstæðisflokknum erfitt, nú þegar hafi Miðflokkurinn töluvert náð að mála Framsóknarflokkinn út í horn. Hann segir að það sé ekki endilega gjá milli flokksforystu og grasrótar í Sjálfstæðisflokknum, frekar sé um að ræða fylkingar innan flokksins. „Þetta eru sömu fylkingar og hafa tekist á lengi, það eru hin frjálslyndu öfl sem styðja alþjóðasamstarf og hinir íhaldssamari sem leggja meiri áherslu á þjóðleg gildi.“

Það áhugaverða við þriðja orkupakkann er hvernig víglínan er dregin. „Þetta snýst um svo margt annað en aðeins það sem finna má í þessum lagabálki, þetta snýst að einhverju leyti um EES-samninginn en aðallega almennt um stöðu Íslands í alþjóðamálum. Efnislega er þetta lítið mál, sem sést best í því að þáverandi stjórnvöld kusu að gera ekki athugasemdir við málið þegar það var til umfjöllunar á vettvangi EES fyrir allnokkrum árum.“