Ekki er það skráð sérstaklega hjá Landhelgisgæslunni þegar enginn er á þyrluvakt hjá þeim en um 65 prósent ársins eru tvær af sex þyrluáhöfnum sveitarinnar á bakvakt.

Það kemur í svari dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata um málið en hana sendi hana inn eftir að fjallað var um það að enginn hefði verið á þyrluvakt í um átta klukkustundir hjá Landhelgisgæslunni. Það var vegna veikinda og vegna þess að sú vakt sem var skráð var í hvíld.

Í svari ráðherra segir að í þyrlusveitinni séu starfandi sex þyrluáhafnir sem allar vinna á bakvöktum. Um 65 prósent ársins eru tvær þyrluáhafnir á bakvakt og ríflega þriðjung ársins er ein áhöfn tiltæk.

Afar sjaldgæft

Þá kemur fram að eftir að þyrluáhöfnum var fjölgað úr fimm í sex fyrir tæplega tveimur árum gerist það afar sjaldan að Landhelgisgæslan hafi ekki yfir neinni þyrluáhöfn að ráða.

„Þegar slík tilvik koma upp hefst strax vinna við að tryggja fulla viðbragðsgetu þyrlusveitarinnar og tekst það í flestum tilfellum á skömmum tíma. Jafnframt er rétt að geta þess að sú staða getur vissulega komið upp að þrátt fyrir að tvær þyrlur og tvær áhafnir séu tiltækar að morgni þá getur staðan breyst þegar líður á daginn vegna útkalla og annarra krefjandi verkefna þyrlusveitarinnar,“ segir í svari ráðherra.

Þá kemur fram að þau tilvik þar sem enginn er á vakt sé ekki skráð sérstaklega og að það væri mikil vinna að fara yfir allar stöðuskýrslur til að komast að því.

Sjá svarið hér.