Niðurstaða rannsóknar Embættis landlæknis á voveiflegu slysi á hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli, er sú að ekki sé hægt að segja með vissu hvort íbúinn hafi látist af völdum áverka í kjölfar slyssins, eða annarra undirliggjandi þátta.

Slysið átti sér stað um miðjan janúar á þessu ári. Þá varð sjúklingur á tíræðisaldri, sem búsettur var á heimilinu, fyrir því að fataskápur féll á viðkomandi, þegar hann var einsamall inni í herbergi sínu. Talið er að maðurinn hafi reynt að styðja sig við skápinn þegar hann var að rísa á fætur, með þessum hörmulegu afleiðingum.

Fataskápurinn var ekki naglfastur og var þar að auki á hjólum, sem gerði það að verkum að hann var afar valtur. Þegar starfsfólk á vakt þennan umrædda dag kom aðvífandi, í kjölfar hávaða frá herbergi sjúklingsins, lá maðurinn slasaður undir skápnum. Innan við sólarhring síðar lést hinn slasaði og var málið þegar tilkynnt til Embættis landlæknis, eins og skylt er samkvæmt lögum þegar alvarleg atvik sem valdið hafa, eða geta valdið, sjúklingum alvarlegu tjóni. Fréttablaðið greindi frá því í byrjun febrúar að rannsókn málsins væri hafin.

Niðurstaða rannsóknar landlæknisembættisins er sú, að ekki er tekin afstaða til þess hvert banamein mannsins var.

„Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekki er ljóst hvort íbúinn hafi látist af völdum áverka, eða undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.

Hann segir að dreginn verði lærdómur af hinu voveiflega slysi. „Með hliðsjón af atvikinu fyrirhugar embættið að benda öðrum hjúkrunarheimilum á að gera ráðstafanir svo sambærilegt atvik eigi sér ekki aftur stað,“ segir Kjartan Hreinn.

Sólveig Unnur Eysteinsdóttir, deildarstjóri á Kirkjuhvoli og staðgengill hjúkrunarforstjóra, segir að þegar hafi verið gripið til aðgerða á hjúkrunarheimilinu í kjölfar slyssins. Öll húsgögn hafi verið fest kyrfilega og öryggi tryggt. Aðspurð hvort krafa um skaðabætur frá aðstandendum sjúklingsins hafi borist, sagði Sólveig: „Ekki svo mér sé kunnugt um.“

Rangárþing eystra sér um rekstur Kirkjuhvols, en hann hófst þann 1. mars 1985. Heimilismenn á Kirkjuhvoli eru yfirleitt um 30 talsins. Hjúkrunarrými eru 28 og dvalarrými tvö.