Það eru til alveg fáránlega fáar myndir af okkur saman, bara tveimur, þó við höfum kynnst fyrir löngu – í Leiklistarskólanum,“ segir Unnur Ösp, „Ég set alltaf sömu myndina á Facebook þegar Vigga á afmæli – ég, Vigga og Bassi á Laugaveginum.“
Þetta verk heitir Framúrskarandi vinkona, eruð þið framúrskarandi vinkonur? Vigdís Hrefna er fljót að svara: „Nei! Djók. Ekki skrifa það!“
Unnur Ösp bætir við: „Jú, við erum það. Hvað er að vera framúrskarandi vinkona? Jú, það er að standa saman í gegnum súrt og sætt, og í langan tíma,“ – „og þroskast saman,“ segir Vigdís Hrefna. „Það er sko ekki sjálfgefið. Maður eignast vini í gegnum lífið og sumir fylgja manni, með öðrum þroskumst við í sundur, en við tvær höfum borið gæfu til að vera vinkonur í gegnum ýmislegt. Þegar við vorum saman í Leiklistarskólanum bjó ég rétt hjá skólanum, en Unnur skutlaði mér gjarnan heim í rauðri Hondu Civic. Og svo var hringt: Hva? Ertu ekki búin í skólanum?“ og ég svaraði: „Jú jú – ég er bara hérna fyrir utan!" Og þá vorum við búnar að spjalla í marga klukkutíma.“

Saman við fall Tvíburaturnanna
Í verkinu eru sögulegir atburðir og tíðarandi speglað í gegnum vinskap þeirra Lilu og Elenu. En voru Unnur og Vigdís saman á einhverjum stórum stundum í sögunni? „Já, reyndar! Við vorum saman þegar Tvíburaturnarnir féllu!“ segir Unnur Ösp. Þegar hér er komið sögu birtist Bassi, maður Vigdísar Hrefnu, með yngsta barn þeirra sem þarf að fá sér að súpa. „Þessi kemur nú alltaf hérna skælbrosandi á æfingar að fá sér sopa. Margar konur hefðu nú farið á hliðina að vera með brjóstabarn og að leika svona stórt hlutverk,“ segir Unnur Ösp.
Það að vera í endalausu ströggli dregur fram breyskari og harðari hliðar á manneskjunni og þessar konur þurfa að afneita tilfinningum sínum til að lifa af í þessu samfélagi.
Tabú móðurhlutverksins
Það er ljóðrænt að sitja í framsal Þjóðleikhússins að ræða móðurhlutverkið á meðan barnið fær sér brjóst.
„Mér finnst Elena Ferrante, höfundur verksins, takast á við móðurhlutverkið á áhugaverðan hátt. Hún er óhrædd við að fara inn á óþægilega staði þegar hún fjallar um það,“ segir Vigdís Hrefna: „Þessi komplexuðu sambönd við sína eigin móður, eða við börnin sín. Hún notar mikið dætur og mæðgnasambönd í öllum sínum verkum.“
„Þessi tabú móðurhlutverksins, sem fylgir ákveðin skömm, en við könnumst allar við,“ segir Unnur Ösp og heldur áfram: „Það er ótrúlega gaman að takast á við hlutverk frá barnsaldri til fullorðinsára, þannig að áhorfendur eru með okkur í áföllum bernskuáranna sem fylgja okkur inn í fullorðinsárin – ofbeldið hefur áhrif á það hvernig þessar vinkonur bregðast við eins og þær gera, Þegar þær eru að halda öllum boltunum á lofti eins og við nútímakonur könnumst við.“

Afrómantíserar fátæktina
Vigdís Hrefna bætir við: „Og svo er svo magnað hvernig hún tengir þetta við samfélagið – hún afrómantíserar þetta fátæka samfélag eftirstríðsáranna á Suður-Ítalíu sem við höfum rómantískar hugmyndir um, sem við fáum líklega í gegnum kvikmyndasöguna. „Oh, það er svo gaman á Ítalíu og allir svo hressir, og þetta heita skap!“
Þetta er bara fátækt, ofbeldi, kvenhatur, mannfyrirlitning og sjúkleg hómófóbía. Þegar ég las bækurnar í fyrsta skipti minnti þetta mig á Sjálfstætt fólk, þar sem Laxness tekur hina upphöfnu og rómantísku hugmynd um sveitalíf og göfgi fátæktarinnar og afhelgar hana. Þetta gerir Ferrante líka. Fátækt er ekki eitthvað sem upphefur okkur. Það að vera í endalausu ströggli dregur fram breyskari og harðari hliðar á manneskjunni og þessar konur þurfa að afneita tilfinningum sínum til að lifa af í þessu samfélagi.”
Nú er litli karlinn búinn að drekka nóg og feðgarnir kveðja okkur. „Það er mjög táknrænt um hvað við erum búnar að vinna lengi að þessu verki að Vigga er búin að eignast barn í millitíðinni – verða ólétt, ganga með, og nú er hann hérna að koma í leikhúsið að fá sér aðeins,“ segir Unnur.
Það er mjög táknrænt um hvað við erum búnar að vinna lengi að þessu verki að Vigga er búin að eignast barn í millitíðinni – verða ólétt, ganga með, og nú er hann hérna að koma í leikhúsið að fá sér aðeins. -Unnur
Eins og hálfs árs æfingatímabil
Talandi um langan æfingatíma, ætli það sé ekki óraunverulegt að vera loksins að sýna þetta þrekvirki eftir allan þennan tíma?
„Jú, og við erum eiginlega ekki alveg öruggar fyrr en við stöndum á sviðinu og tjaldið fer fyrir, þá erum við búnar að frumsýna. Þetta er búin að vera mesta áskorunin. Við erum búin að byrja og hætta æfingum fjórum eða fimm sinnum yfir eins og hálfs árs tímabil, og það í þessum tilfinningalega boga sem við leikarar erum vanir að vinna með þegar við erum að undirbúa hlutverk. Það er alltaf verið að kasta okkur niður eftir fjallinu í miðri fjallgöngu og það hefur reynt alveg lúmskt á. Ég var bara áðan í græna herberginu að viðurkenna það fyrir mér að ég væri komin með fiðrildi í magann,“ segir Unnur Ösp og bætir við: „Að koma allri sögunni fyrir á einu kvöldi er krefjandi. Við erum búin að vinna í leikgerðinni og smáatriðum í sögunni fram á síðustu mínútu. Innsæi leikarans virkar þannig að maður hefur oft sterkustu tilfinninguna fyrir því hvaða augnablik verða að vera inni í sögunni og maður berst fyrir því.“
„Já, í bókunum er mikið af núönsum og þess vegna þurfum við að vanda okkur í leikritinu hvað við erum að sýna, hvert við beinum kastaranum í það og það skiptið,“ segir Vigdís Hrefna.
Hættulegir staðir í manneðlinu
„Mér finnst verkið ná vel því sem bækurnar gera svo vel, að ég held ekkert með annarri hvorri – ég sveiflast alveg á milli, þær eru svo breyskar báðar, þær eru svo rosalega sympatískar og líka ósympatískar.”
Unnur Ösp fer á flug. „Mjög! Það er svo skemmtilegt þegar maður fær að fara í þessa hættulegu staði í mannlegu eðli, ósympatísku, ljótu, jafnvel grótesku staði. Ferrante er alltaf að fjalla um þessa staði – og við sem konur … að fá að fara fokking þangað – það er svo gaman! Allar þessar flækjur í vináttunni líka, sem við þekkjum allar: Erfið, skrýtin samkeppni milli kvenna í karlaheimi. Þó svo að við séum á öðrum stað en í Napólí fyrir sjötíu árum, þá er samt sú stemmning alltaf í okkur að einhverju leyti. Þó að við vonumst til að losna undan þessu hægt og rólega. Reykjavíkurdætur eru að syngja um þetta nákvæmlega núna í Júróvisjón: „Þeir vilja okkur einar, hræðast okkur í hóp, „They love us alone – but they hate us together.“