Alls hafa 2000 leghálssýni sem voru uppsöfnuð hjá Krabbameinsfélaginu verið send út á rannsóknarstofu í Danmörku. Um 400 sýni sem voru tekin í enda desember og í byrjun janúar verður send út eftir helgi.
Þetta kom fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um af hverju Landspítalanum og íslensku heilbrigðisstarfsfólki var ekki treyst til þess að greina sýnin.
Helga sagði það „dæmalaust klúður“ að leghálssýni úr 2000 konum hefðu legið óhreyfð og biðu rannsóknar í pappakössum inni í heilbrigðiskerfinu og vildi fá svör við því af hverju íslenskum stjórnvöldum hugnaðist að semja tímabundið í rannsóknarstofu í Danmörku frekar en að nýta íslenskt rannsóknarfólk og tæki Landspítalans.
Þá spurði hun einnig hvers vegna það hefur tekið svo langan tíma að flytja þjónustina frá Krabbameinsfélaginu til Landspítalans og heilsugæslunnar en það hefur staðið yfir í um tvö ár.
Svandís sagði að öryggi og gæði rannsókna er alltaf verið höfð að leiðarljósi varðandi rannsóknir leghálssýna og að það getur ekki verið sérstakt hagsmunamál hvar sýnin eru greind heldur að þau séu rétt greind.
„Við yfirflutning þjónustunnar er eðlilegt að einhver tími fari í að taka við nýju hlutverki og koma öllu í sitt horf. En staðan er þannig nákvæmlega núna í dag að stóri samningurinn um greiningu á þessum sýnum var tilbúin á föstudaginn var og nú hafa 2000 sýni verið send út sem voru uppsöfnuð hjá Krabbameinsfélagi Íslands,“ sagði Svandís sem hvatti jafnframt Helgu Völu til að tala ekki niður opinbera heilbrigðisþjónustu í pólitísku skyni.

Helga Vala ítrekaði hins vegar spurningu sína í andsvörum sínum og spurði að nýju af hverju sýnin voru send út.
„Treystir hæstvirtur heilbrigðisráðherra ekki opinberu starfsfólki á Landspítala og þeim nýju tækjum sem þar eru til þess að rannsaka þessi sýni? Öryggi og gæði skipta máli, ekki hvar þetta fer fram og þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að heilbrigðisráðherra svari þeirri spurningu hvers vegna er ekki notast við þessi nýju tæki?“ sagði Helga Vala.
Svandís sagði að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að senda sýnin til Danmerki snerist fyrst og fremst um öryggi og treystir hún faglegu mati þeirra sem komu að henni hérlendis.
„Þegar sú ákvörðun er tekin af heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu að semja við þessa rannsóknarstofu í Danmörku þá snýst það um öryggi. Það snýst fyrst og fremst um öryggi. Ég hef lagt á það áherslu að standa með faglegu mati míns fólks á því hvernig öryggi er best tryggt og upplýsingar verða öruggar á milli rannsóknastofunnar og þeirra kvenna sem fara í skimun og þær niðurstöður munu berast hratt og örugglega þegar þetta verður komið í það horf sem er og verður til framtíðar og mun liggja fyrir á allra næstu dögum,“ sagði Svandís að lokum.