„Það hefur ekkert breyst, við og Sjálfstæðismenn eigum enga samleið. Ástæðan er málefnaleg fjarlægð milli þessara tveggja flokka,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vegna þráláts orðróms um að flokkurinn hafi nýverið opnað á möguleika um ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.
Síðast í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV um helgina var því haldið fram að mögulega hefði Samfylkingin breytt fyrri afstöðu sinni til samstarfs með Sjálfstæðisflokki. Helga Vala segir slíkt tal hreinan spuna: „Það eru hlutir sem nauðsynlegt er að fara í á næsta kjörtímabili og við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki, heilbrigðiskerfið er þar efst á blaði.“
Mikið er rætt um möguleg stjórnarmynstur en samkvæmt könnun Fréttablaðsins er þriggja flokka meirihluti mjög ólíklegur vegna dreifingar fylgisins. Framsóknarflokkurinn virðist í góðri stöðu og er enginn flokkur líklegri til að fá inni í nýrri ríkisstjórn. Spurð hvort útilokun samstarfs við Sjálfstæðisflokk þrengi möguleika flokksins um of, lítur Helga Vala ekki svo á. Full samstaða sé um afstöðuna í forystu flokksins.
„Það er bara enginn séns á að við getum unnið saman,“ segir Helga Vala.