Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi kvöldsins.

Kári segir að það hefði verið skynsamlegra að herða aðgerðir töluvert meira en var gert þegar hópsýkingar komu upp í öldurhúsum í Reykjavík þann 18. september síðastliðinn.

„Ég held að lærdómurinn sem við getum dregið af síðustu vikum er að þegar að slíkar hópsýkingar koma upp þá eigum við að bregðast hart við. Við eigum að reyna að slökkva á þessu mjög fljótt og sætta okkur frekar við hertari aðgerðir til skemmri tíma."

Þá segir hann að nú séum við að horfa fram á að aðgerðir verði hertar enn frekar og erfitt að segja til hvenær verði létt á ýmsum takmörkunum sem eru nú þegar í gildi. Kári er jafnframt þeirrar skoðunar að aðgerðirnar ættu að taka gildi fyrir helgi en ekki eftir eins og hefur verið boðað.

Mildar aðgerðir hafi ekki skilað sér

Smitum hefur farið fjölgandi þessa vikuna hér á landi eftir að hópsýking greindist á Landakoti. Í gær greindust alls 86 ný smit innanlands. Kári segir að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til í þriðju bylgju faraldursins hafi ekki verið nógu strangar.

„Nú stöndum við frammi fyrir því að eftir það sem við skulum kalla mildar aðferðir um nokkra vikna skeið, þá sér ekki högg á vatni. Við hljótum að fara á svipaðan stað og við vorum á í vor. Við eigum að loka öllum verslunum fyrir utan matvöruverslanir, loka veitingastöðum og loka á alla íþróttastarfsemi bæði innan- og utanhúss.

Þá segir hann að nú verði að gefa töluvert í svo að við getum notið þess að búa í landi þar sem engin ný sýking er að koma. „Við erum búin að ná að loka landinu vel."

Hann segir jafnframt að svo virðist sem veiruafbrigðið sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst sé óvanalega smitandi þó að það hafi ekki verið sannað.

Hólfaskipta skólum

Kári segir að það sé hægt að leiða að því rök að skynsamlegt væri að loka skólum. „ Þó að börn sýki minna þá sýkjast þau samt og sýkja aðra." Hann telur að skynsamlegast væri að hólfaskipta skólum líkt og gert var í vor til að draga úr smithættu.