Birgir Ómar Haralds­son, fram­kvæmda­stjóri Norður­flugs, segir daginn í dag hafa verið ró­legri með til­liti til bókana á út­sýnis­flug yfir nýjar goss­stöðvar í Mera­dölum heldur en í gær.

„Það er nokkuð drjúgt að gera, það er ekki hægt að neita því,“ segir Birgir. Að­spurður segir hann ekki mikið laust í flug yfir gos. Fyrirtækið rekur fjórar þyrlur í útsýnisflug.

„En það var nú ansi mikið að gera hjá okkur fyrir, svo þetta bætist í raun við miklar bókanir. En þetta hafa verið mikil læti, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Birgir.

„Þá sér­stak­lega í gær. En mér finnst nú Ís­lendingarnir heldur ró­legri yfir þessu heldur en áður.“

„Þetta er kannski orðið bara að enn einu gosinu og eld­fjalla­fræðingarnir búnir að segja að við séum að fara inn í tíma­bil gosa, þannig kannski kemur bara annað gos á næsta ári og kannski enginn að flýta sér núna. Ég held þetta sé eigin­lega þannig,“ segir Birgir hlæjandi.

Hann segir er­lenda ferða­menn mjög á­huga­sama um þyrlu­flug yfir gosið. „En þetta er ekki alveg sama brjál­æðið og á síðasta ári, en það er nóg að gera.“ segir Birgir.

Hér að neðan ber að líta myndband af gossvæðinu sem ljósmyndari Fréttablaðsins tók úr þyrlu seinni partinn í dag: