Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir ekki mikið rými til almennra tilslakana eina og staðan er núna.

Þórólfur hefur sent tillögur um aðgerðir til ráðherra sem taka gildi á miðvikudaginn kemur, 2. desember. „Tillögurnar eru nú til skoðunar hjá stjórnvöldum en ég á von á því að stjórnvöld muni greina frá sínum endanlegu tillögum annað hvort í dag eða á morgun," sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

Ekki er ljóst hversu lengi komandi tillögur muni gilda, en það er í höndum Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að ákveða það.

Átta greindust innanlands í gær, en fimm voru utan sóttkvíar við greiningu.

„Við getum sagt að faraldurinn er í línulegum vexti, við erum ekki að missa hann yfir í veldisvöxt eins og tölurnar líta út."

Lang flest smit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu undanfarið en Þórólfur segir að svæðisbundnar aðgerðir komi til greina.

Ekki hægt að gefa falskar vonir fyrirsjáanleika

Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir auknum fyrirsjáanleika í aðgerðum stjórnvalda og sagt að erfitt sé fyrir fyrirtæki að vera í mikilli óvissu með næstu skref. Aðspurður um þessar kröfur sagðist Þórólfur sýna þeim skilning en ekki væri hægt að búa til fyrirsjáanleika fyrir einstaklinga og fyrirtæki þegar fyrirsjáanleikinn í veirunni sé lítill eða enginn. „Við sjáum það að hlutirnir breytast frá degi til dags. Ef menn eru að kalla eftir fyrirsjáanleika á þann máta að aðgerðirnar eigi að gilda mjög lengi þá verða menn hugsanlega fyrir vonbrigðum þegar þarf að breyta og líka þegar menn sjá fram á það að það sé kannski hægt að aflétta fyrr en áætlað var. Ég held að þetta sé bara mjög vandlifað og ég held að það sé ekki hægt að gefa einhverja falskar vonir um fyrirsjáanleika.“

Fréttin hefur verið uppfærð.