Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segist ekki vita í hverju mistök stjórnenda spítalans ættu að vera fólgin vegna hópsmitsins á Landakoti. Þetta kom fram í viðtali við Einar í Kastljósi í kvöld.
Landspítalinn kynnti á föstudag skýrslu um hópsmitið, en tólf hafa látið lífið vegna þess og 200 manns smitast af veirunni. Már hefur áður sætt gagnrýni aðstandenda fyrir að hafa gagnrýnt viðbrögð landlæknisembættisins vegna málsins.
Í viðtalinu var Már meðal annars spurður að því hvort það hafi verið mistök fólgin í því að hafa ekki náð að halda smitinu á einum stað. Landakot var ekki hólfaskipt þegar smitin komu upp.
Margir atburðir sem eiga sér stað
Hann segist ekki geta fallist á það að Landspítalanum hafi ekki tekist að halda smitinu á einum stað, smitvarnir hafi verið í lagi.
„Því það felur það í sér að það hafi bara komið inn á einum stað og síðan breiðst út. En það liggur fyrir þegar þú skoðar erfðafræði veirunnar að það eru margir íkomustaðir veirunnar á faraldurstímanum, að minnsta kosti þrír, og sennilega fjórir eða fimm atburðir sem hafa átt sér stað.
Þannig þetta eru margir atburðir sem eiga sér stað, bæði starfsmenn og sjúklingar. Við tvo þessara atburði varð engin útbreiðsla en við aðra verður útbreiðsla.“
Veit ekki í hverju mistökin ættu að vera fólgin
Már segist aðspurður ekki sjá í hverju mistök stjórnenda spítalans ættu að vera fólgin. Viðbragðsáætlanir séu í gildi og þekking starfsfólks auks persónulegra smitvarna.
„Starfsfólkið hefur það að lífsviðurværi að sinna öldruðu fólki og við erum í þessum bransa að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Það er ekki raunhæft að lenda ekki í þessu. Við höfum lent í fimm faröldrum inni á spítalanum í þriðju bylgjunni.
Við erum alltaf að lenda í þessu en höfum aldrei lent í viðlíka útbreiðslu og þessu á Landakoti. Enda er það húsnæði langsíst til þess fallið að halda utan um svona faraldur,“ segir Már.
„Umræður í fjölmiðlum og þær fyrirspurnir sem við fáum eru hvort við erum ekki leið yfir því að þetta hafi gerst, hvort hafi orðið mistök. Við göngum ekki til vinnunnar með þann ásetning að gera mistök. Það ganga allir til vinnunnar inn í það umhverfi sem vinnustaðurinn skapar þér til þess að gera eins vel og þú getur,“ segir hann.