Már Kristjáns­son, yfir­læknir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans, segist ekki vita í hverju mis­tök stjórn­enda spítalans ættu að vera fólgin vegna hóp­smitsins á Landa­koti. Þetta kom fram í við­tali við Einar í Kast­ljósi í kvöld.

Land­spítalinn kynnti á föstu­dag skýrslu um hóp­smitið, en tólf hafa látið lífið vegna þess og 200 manns smitast af veirunni. Már hefur áður sætt gagn­rýni að­stand­enda fyrir að hafa gagn­rýnt við­brögð land­læknis­em­bættisins vegna málsins.

Í við­talinu var Már meðal annars spurður að því hvort það hafi verið mis­tök fólgin í því að hafa ekki náð að halda smitinu á einum stað. Landa­kot var ekki hólfa­skipt þegar smitin komu upp.

Margir at­burðir sem eiga sér stað

Hann segist ekki geta fallist á það að Land­spítalanum hafi ekki tekist að halda smitinu á einum stað, smit­varnir hafi verið í lagi.

„Því það felur það í sér að það hafi bara komið inn á einum stað og síðan breiðst út. En það liggur fyrir þegar þú skoðar erfða­fræði veirunnar að það eru margir í­komu­staðir veirunnar á far­aldurs­tímanum, að minnsta kosti þrír, og senni­lega fjórir eða fimm at­burðir sem hafa átt sér stað.

Þannig þetta eru margir at­burðir sem eiga sér stað, bæði starfs­menn og sjúk­lingar. Við tvo þessara at­burði varð engin út­breiðsla en við aðra verður út­breiðsla.“

Veit ekki í hverju mis­tökin ættu að vera fólgin

Már segist að­spurður ekki sjá í hverju mis­tök stjórn­enda spítalans ættu að vera fólgin. Við­bragðs­á­ætlanir séu í gildi og þekking starfs­fólks auks per­sónu­legra smit­varna.

„Starfs­fólkið hefur það að lífs­viður­væri að sinna öldruðu fólki og við erum í þessum bransa að reyna að hefta út­breiðslu veirunnar. Það er ekki raun­hæft að lenda ekki í þessu. Við höfum lent í fimm far­öldrum inni á spítalanum í þriðju bylgjunni.

Við erum alltaf að lenda í þessu en höfum aldrei lent í við­líka út­breiðslu og þessu á Landa­koti. Enda er það hús­næði lang­s­íst til þess fallið að halda utan um svona far­aldur,“ segir Már.

„Um­ræður í fjöl­miðlum og þær fyrir­spurnir sem við fáum eru hvort við erum ekki leið yfir því að þetta hafi gerst, hvort hafi orðið mis­tök. Við göngum ekki til vinnunnar með þann á­setning að gera mis­tök. Það ganga allir til vinnunnar inn í það um­hverfi sem vinnu­staðurinn skapar þér til þess að gera eins vel og þú getur,“ segir hann.