Embætti ríkislögreglustjóra hefur engin mál til rannsóknar vegna njósnaforritsins Pegasusar að sögn Runólfs Þórhallssonar, yfirmanns greiningardeildarinnar. Deildin hafi ekki upplýsingar um að forritið hafi verið notað á Íslandi.

Aðspurður segir Runólfur lögregluna ekki geta tjáð sig um öryggisráðstafanir sem kunni að vera gerðar til að tryggja öryggi æðstu stjórnar.

Njósnaforritið Pegasus hefur komist í kastljósið vegna rannsóknar, sem unnin var af yfir 80 blaðamönnum í samstarfi við Amnesty International og fjölmiðlasamtökin Forbidden Stories, hins svokallaða Pegasusarverkefnis.

Rannsóknin leiddi í ljós að forritið, sem runnið er undan rifjum ísraelska hugbúnaðarfyrirtækisins NSO Group, hefur verið notað til þess að fremja ótal mannréttindabrot af ríkisstjórnum um allan heim.

„Pegasusarverkefnið afhjúpar að njósnaforrit NSO eru kjörvopn harðstjórna sem hyggjast þagga niður í blaðamönnum, ráðast á aðgerðasinna og bæla niður andóf og stofna þannig lífi ótalmargra í hættu,“ sagði Agnès Callamard, aðalritari Amnesty International, í yfirlýsingu á heimasíðu samtakanna

.„Þessar afhjúpanir gera út af við allar staðhæfingar NSO um að svona árásir séu sjaldgæfar og tíðkist aðeins vegna óheimillar notkunar á tæknibúnaði þeirra. Þótt fyrirtækið segi að njósnaforritin séu einungis notuð í lögmætum rannsóknum á glæpa- og hryðjuverkastarfsemi er ljóst að tækni þeirra hefur stuðlað að kerfisbundinni valdníðslu.“

Pegasus er njósnaforrit sem hlaðið er inn á snjallsíma í laumi og það notað til að fá aðgang að skilaboðum, hljóðnema, myndavél, símtölum og tengiliðum notandans. NSO selur aðeins erlendum ríkisstjórnum forritið og þá aðeins með leyfi Ísraelsstjórnar þar sem það er lagalega skilgreint sem vopn.

Rannsókn Pegasusarverkefnisins byggir á 50.000 símanúmerum sem lekið var til Amnesty International árið 2020 og voru talin tilheyra aðilum sem viðskiptavinir NSO hugðust vakta. Amnesty Internat­ional rannsökuðu gögn úr 67 símum af listanum og fundu ummerki um njósnaforritið í 37 þeirra. Þar af hafði því verið hlaðið upp í 23. Rannsóknin bendir til þess að viðskiptavinir NSO séu í Mexíkó, Aserbaísjan, Kasakstan, Ungverjalandi, Indlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádi-Arabíu, Barein, Marokkó, Rúanda og Tógó.

Meðal eigenda símanúmeranna á listanum má nefna Rahul Gandhi, fyrrverandi leiðtoga indversku stjórnarandstöðunnar, Carine Kanimba, dóttur rúandska stjórnarandstæðingsins Pauls Rusesabagina sem nú er í fangelsi, og um fimmtíu manns í innsta hring mexíkóska forsetans Andrés Manuel López Obrador. Rannsóknin hefur einnig leitt í ljós að njósnaforritum NSO var beitt gegn ættingjum sádi-arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi, sem var myrtur árið 2018.

Ríkisstjórn Pakistans hefur hafið rannsókn á því hvort forritinu hafi verið beitt til að njósna um síma Imrans Khan forsætisráðherra.

Ríkisstjórn Frakklands hefur jafnframt kunngert fréttamiðlinum Le Monde að símanúmer Emmanuels Macron forseta og margra ráðherra í ríkisstjórn hans hafi verið meðal númera sem marokkóska leynilögreglan hafi reynt að njósna um með búnaðinum frá NSO-Group.