Um fimm­tíu prósent slökkvi­liða ná ekki að upp­fylla kröfur til að geta sinnt reykköfun og slökkvi­starfi innan­húss, ýmist með til­liti til búnaðar, þjálfunar, menntunar eða hæfnis­skil­yrða starfs­manna. Þá eru ekki öll sveitar­fé­lög með slökkvi­lið þannig skipu­lagt, mannað, menntað og þjálfað til þess að geta leyst lög­bundin verk­efni með full­nægjandi hætti.

Þetta kemur fram í skýrslu Hús­næðis-og mann­virkja­stofnunar um stöðu slökkvi­liða á Ís­landi. Skýrslan var unnin í kjöl­farið af út­tektum mann­virkja­stofnunnar á starf­semi slökkvi­liða sem fram­kvæmd voru árið 2021, en til­gangurinn var að ná fram heild­stæðri sýn yfir starf­semi slökkvi­liða á landinu, til þess að efla eld­varnar­eftir­lit og slökkvi­starf þar sem þörf er á. Þannig verði hægt að tryggja fag­lega, virka og sam­hæfða þjónustu slökkvi­liða um land allt.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að ekki hafi öll slökkvi­lið til um­ráða full­nægjandi búnað til um­ráða. Einnig þurfa hús­næði slökkvi­liða ein­hverjar úr­bætur á flestum lands­hlutum, með til­liti til baðað­stöðu starfs­manna, geymsla og þrifa á hlífðar­fatnaði og búnaði.

Staða bruna­varna­á­ætlana var hvað lökust á Vest­fjörðum og Norð­vestur­landi, en að­eins tvö slökkvi­lið höfðu gilda bruna­varnar­á­ætlun á þeim svæðum. Bruna­varna­á­ætlun á að liggja fyrir á hverju starfs­svæði slökkvi­liðs og skal þar koma fram hvernig slökkvi­lið upp­fyllir þær kröfur sem gerðar eru til starf­seminnar. Um 64 prósent slökkvi­liða var ekki með sam­þykkta bruna­varna­á­ætlun.

Tillögur að úrbætum

Helstu til­lögur að úr­bætum sem koma fram í skýrslunni eru meðfylgjandi:

  • að ráðast þarf í nánari greiningu á starf­semi slökkvi­liða á grund­velli fyrir­liggjandi út­tekta og vinna að því að sam­ræma og sam­þætta bruna­varnir og önnur lög­bundin verk­efni.
  • Sveitar­fé­lög þurfa að huga að frekari sam­starfi og sam­einingum minni slökkvi­liða sem hafa ekki burði til að upp­fylla lög­bundnar kröfur og/eða takast á við stórar á­hættur á þeirra svæðum.
  • Einnig verður á­fram unnið að eftir­fylgni með gerð bruna­varna­á­ætlana sveitar­fé­laga og að starfað sé í sam­ræmi við þær.
  • Vinna þarf að því að stjórn­enda­vaktir séu tryggðar á öllum starfs­svæðum slökkvi­liða og að starfs­hlut­fall slökkvi­liðs­stjóra sé í sam­ræmi við á­byrgð hans og vald­heimildir.
  • Þá er lagt til að stuðlað verði að upp­byggingu á bað- og afeitrunar­að­stöðu að­stöðu slökkvi­liða og bæta al­menna að­stöðu til þrifa á hlífðar­fatnaði og öðrum búnaði slökkvi­liða á stöð.