„Þótt þú sért ekki skráður fjölmiðill þá getur þú ekki komist hjá því að falla undir lögin,“ segir Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Hann var til svara í Bítinu á Bylgjunni í morgun og ræddi þar hvort hlaðvörp geti talist til fjölmiðla.

Aðspurður hvort hlaðvörp eigi að teljast fjölmiðlar segir Skúli að það fari eftir hverju hlaðvarpi fyrir sig: „Það eru ekki öll hlaðvörp fjölmiðlar. Hlaðvarp er leið til miðlunar og sum hlaðvörp geta verið fjölmiðlar. Við þurfum í rauninni að svara spurningunni hvaða hlaðvörp eru fjölmiðlar,“ segir Skúli.

Þá séu nokkrir þættir sem ákvarði hvort að hlaðvarp geti talist fjölmiðill: „Eru kostanir á þættinum? Ertu að hafa tekjur af þessu? Er atvinna þín að vera með þetta hlaðvarp? Ertu að miðla með reglubundnum hætti? Ertu að miðla efni sem er svipað og við vitum að er inni á þessum hefðbundnu fjölmiðlum? Það eru nokkrir þættir sem við þurfum að horfa í þegar við erum að skoða hvort hlaðvarp sé fjölmiðill,“ segir Skúli enn fremur.

Er hlaðvarp þar með orðinn fjölmiðill um leið og auglýsingar birtast í þættinum? „Það er sterk vísbending um það, en það eitt og sér er ekki nóg til þess,“ segir Skúli.

Þarf að skilgreina markmið hlaðvarpa

Skúli var spurður út í það hvort ekki þyrfti að setja skýrar reglur um hvað telst til fjölmiðla og hvað ekki svo það sé ekki matsatriði Fjölmiðlanefndar hverju sinni: „Það er góður punktur. Eðlilegt er að menn fari fram á að það séu skýrar reglur um þetta. En hvar ætlum við að draga línuna?“ svarar Skúli.

Erfitt geti verið að meta það sökum misjafnra stærða miðla landsins: „Við erum með litla staðarmiðla þar sem fáir hlusta og svo aðra þar sem margir hlusta.“

Hann segir að Fjölmiðlanefnd þurfi að vera í takt við tímann þegar nýir miðlar koma fram á sjónvarsviðið: „Við tókum þessa umræðu þegar RÚV fór á netið, þá vorum við ekkert sammála um það hvort RÚV ætti heima sem netmiðill.“ Þá segir hann jafnframt að umræðan muni koma til með að snúast um eitthvað allt annað en hlaðvörp eftir tíu ár.

Þáttastjórnendurnir tóku dæmi um það ef þeir myndu byrja með sitt hvort hlaðvarpið – annar næði til 10.000 manns en hinn til aðeins 200 manns og hvorugir auglýsa neitt í þættinum. Væri þá sá með meiri hlustun orðinn sjálfkrafa að fjölmiðli en hinn ekki

Skúli segir að þá þurfi að spyrja nokkurra spurninga: „Hvert er markmiðið með þessu? Er þetta einskær áhugi? Ertu að ná til einhvers markhóps? Það getur verið fjölmiðill án þess að það sé endilega verið að auglýsa. En hvernig skilgreinir þú þig og hvað er fjölmiðlun?“

Þá sé það sterkt dæmi um fjölmiðlun ef hlaðvarp nær til 10.000 manns með þætti sínum. Um leið og þáttastjórnendur séu farnir að hafa tekjur af þáttunum þá horfi Fjölmiðlanefnd á þá sem fjölmiðla: „Við erum þá að fara eftir þeim lögum sem gilda um fjölmiðla,“ segir Skúli.

Setur spurningarmerki við meinta veltu Dr. Football

Skúli var spurður sérstaklega út í 500.000kr. sekt sem hlaðvarp í umsjón sparkspekingsins Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, fékk fyrir skömmu. Skúli segir að sú sekt sé metin út frá því hvaða tekjur Hjörvar hefur út frá sínu broti.

Rætt var um að sektin hefði numið fimm prósent af veltu hlaðvarpsins en Skúli tekur ekki undir það svo glatt: „Það er spurning hvaðan þær upplýsingar koma, hvaðan þær heimildir eru. Ég er bundinn ákveðinni þagnarskyldu gagnvart þeim upplýsingum sem ég hef,“ segir Skúli og bætir við: „Ég set spurningamerki við þessa fimm prósent af veltu.“

Hann segir að Fjölmiðlanefnd hafi ráðist í sektirnar á hlaðvörpin vegna fjölda ábendinga sem henni hafi borist um brot á lögum um auglýsingar og vegna einstaka efnistaka: „Þótt þú sért ekki skráður fjölmiðill þá getur þú ekki komist hjá því að falla undir lögin,“ segir Skúli.

Hann bendir þó á að Fjölmiðlanefnd stundi ekki ritskoðun.