Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir að hún og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, hafi rætt saman um það hvar þau standa og segir það ljóst að af þeim möguleikum sem eru í boði í Reykjavík til meirihlutamyndunar þá sé ekki ólíklegt að þau séu að fara að vinna saman.
Hún að hennar flokkur sé, eins og áður, í þeirri stöðu að geta unnið með flestum flokkum í Reykjavík, bæði til hægri og vinstri.
„Það er ljóst að gamli meirihlutinn er fallinn. Og næsta skref er því að mynda nýjan meirihluta. Í þessum fyrstu skrefum munum við standa saman; Viðreisn, Samfylking og Píratar. Við vitum að málefnalega eigum við samleið í mikilvægum málaflokkum sem snúa að framtíð borgarinnar; í skipulagsmálum, samgöngumálum og stafrænu uppbyggingunni,“ segir Þórdís Lóa í nýrri færslu á Facebook og að þetta séu allt málefni þar sem Framsókn virðist standa þeim nálægt.
„En slíkur meirihluti yrði annar meirihluti en sá sem er nú að líða undir lok. Það er alveg augljóst,“ segir Þórdís og að sama hver niðurstaðan verður þá eigi málefnin að ráða för, en ekki stólarnir.
„Eins og ég sagði á Rás2 í morgun, þá er engin einn borgarstjóri sem mun ráða næstu árin. Þannig var það ekki á síðasta kjörtímabili og þannig verður það ekki á því næsta. Hver meirihluti er samstarf ólíkra flokka, þar sem sjónarmið allra komast að,“ segir Þórdís Lóa í færslunni sem hér að neðan.