Um það bil 70 herbergi eru nú laus á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni og er talið að hótelið muni geta tekið á móti þeim farþegum sem koma til landsins í dag. Talið var að hótelið myndi fyllast í gær eða í morgun en til þess kom ekki.

Til stóð að nýtt sóttkvíarhótel yrði opnað við Barónsstíg í dag en vegna framkvæmda gekk það ekki eftir. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segir að þrátt fyrir að hótelið við Þórunnartún muni líklega geta annað eftirspurn í dag sé líklegt að fleiri hótel þurfi í framtíðinni.

„Við náum vonandi að halda okkur við Þórunnartúnið í dag en það er samt sem áður ljóst að við þurfum að fara að huga að opnun á fleiri stöðum,“ segir Gylfi í samtali við Fréttablaðið. Átta vélar koma til landsins í dag, örlítið fleiri en vanalega, en farþegar um borð vélanna eru færri en búist var við.

Eru með húsnæði ef þess þarf

Rauði krossinn er með varahúsnæði á Rauðarárstíg sem hægt er að nota ef sóttkvíarhótelið í Þórunnartúni fyllist en eftir það þurfi að fara niður listann hjá Sjúkratryggingum Íslands, sem sjá um leigu húsanna, og finna næsta stað.

„Ef það myndi til dæmis gerast í kvöld að þessi 70 herbergi myndu fyllast þá erum við með plan B, en síðan þyrftum við bara að fara neðar á listann hjá Sjúkratryggingum og finna hentugt húsnæði,“ segir Gylfi enn fremur.

Herbergi losna jafnóðum

Ný reglugerð um sóttkvíarhótel tók gildi síðastliðinn föstudag í reglugerðinni voru gerðar skýrari kröfur um skilyrði fyrir heimasóttkví. Þeir sem ekki geta uppfyllt þau skilyrði þurfa að fara í sóttvarnarhús en ekkert gjald verður tekið fyrir dvölina.

Að sögn Gylfa hefur framkvæmd hótelsins gengið vel og er fólk nú að útskrifast á hverjum degi þannig að herbergi losna jafnóðum.

„Nú er bara komið þannig ról á þetta að það eru alltaf einhverjir að útskrifast, það eru á bilinu 30 til 40 manns sem fara í sýnatöku hjá okkur á morgun og þá ættu þau að útskrifast annað hvort annað kvöld eða á þriðjudagsmorgun. Þannig það er svona rúllandi gangur á gestunum,“ segir Gylfi.

Aðspurður um útivist gesta sem dvelja á hótelinu segir Gylfi að þau séu enn að bíða eftir lokasvari frá heilbrigðisráðuneytinu. „Miðað við þau hús sem við erum með þá er miserfitt að leyfa útivist en það verður gert með einhverjum hætti, sýnist mér. En það er bara verið að útfæra það.“