Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, frestaði upphafi þings í morgun um fimmtán mínútur vegna funda flokka á þingi. Á dagskrá þingsins í dag eru alls 42 mál sem þarf að ljúka áður en hægt að taka hlé á störfum þingsins í sumar.
„Það voru einhverjir þingflokkar enn að funda og ég fékk beiðni um að fresta atkvæðagreiðslunni um korter,“ segir Birgir í samtali við Fréttablaðið en fyrsta mál á dagskrá þingsins í dag var atkvæðagreiðsla um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, eða rammaáætlun, en töluvert hefur verið deilt um málið undanfarna daga.
Spurður hvort að umræður þingflokkanna hafi tengst því segir Birgir að hann telji að umræður flokkanna tengist öllum þeim málum sem á eftir að ræða á þingi í dag, en eins og fyrr segir er dagskráin nokkuð löng og því mikið að ræða. Undanfarna daga hefur þing staðið fram yfir miðnætti.
„Ég held að það sé aðallega tengt því að það eru mjög mörg mál sem eru að koma til atkvæða núna og þingflokkar þurfa oft að tala sig saman aðeins en að henni kemur,“ segir Birgir
Gerirðu ráð fyrir því að þið klárið í dag?
„Við skulum orða það þannig að það er enn mögulegt að við klárum í kvöld eða nótt, en það getur líka farið inn á morgundaginn. Það er mikið eftir en það er ekkert ógerlegt í því sambandi,“ segir Birgir.
Þing er nú hafið og er hægt að fylgjast með hér á vef Alþingis.