Norska kauphöllin greindi frá því í lok síðustu viku að grunur léki á að ISA-veira sem veldur blóðþorra sjúkdómi í eldislaxi hafi fundist í laxeldisstöð við Hamraborg í Berufirði.

Borið hefur á umræðu vegna málsins og þeirrar staðreyndar að upplýsingar um málið bárust fyrst til landsins í gegnum norsku kauphöllina en ekki frá innlendum eftirlitsaðilum.

Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun (MAST), segir ekkert óeðlilegt að tilkynningar um möguleg smit berist annars staðar frá á undan þar sem MAST tilkynni ekki um smit fyrr en búið sé að staðfesta grun.

Ef upp komi grunur um smit, líkt og gerðist í Berufirði, sé sýni sent erlendis í raðgreiningu og að ekki sé tilkynnt um málið fyrr en endanleg staðfesting liggi fyrir.

Stöðvar laxeldi tímabundið

Karl Steinar segir veiruna fyrst hafa komið upp við Gripalda í Reyðarfirði í loks árs í fyrra. Þá hafi verið sett í gang sýnataka á öllum svæðum í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Berufirði og búið sé að taka fleiri þúsund sýni á þessum stöðum undanfarna mánuði.

Í vor greindist veiran í eldisstöðinni við Sigmundarhús og við Vattarnes og hefur veiran nú þegar stöðvað allt laxeldi tímabundið í Reyðarfirði.

Í tilkynningu til norsku kauphallarinnar kemur fram að á eldisstöðinni við Hamraborg í Berufirði, þar sem nú liggur grunur á að veiran hafi stungið upp kollinum, séu um 890 þúsund laxar og að meðalþyngd þeirra sé 2,1 kíló.

Erfitt sé að áætla afleiðingar sjúkdómsins núna en að hann muni líklega draga úr væntanlegu uppskerumagni í ár og 2023.

Aðspurður hvað taki við ef grunurinn um veiruna verði staðfestur í Berufirði segir Karl Steinar fiskisjúkdómadýralækni MAST stýra framhaldinu í samstarfi við fyrirtækið.

„Hingað til hefur öllum fisknum verið slátrað á þessu svæði en það er fyrirtækið sem ákveður að gera það í öryggisskyni.“