Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segist ekki hafa fengið nægar upplýsingar frá Rússum til að leggja mat á það hvort bóluefni sem þeir segjast hafa þróað gegn COVID-19 gagnist í raun og veru.

Þetta segir Jarbas Barbosa, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá stofnunni, í samtali við New York Times. Barbosa, sem starfar fyrir undirstofnun WHO, Pan American Health Organization, segir að þeir sem framleiða bóluefni þurfi að fylgja ströngum verklagi áður en efnið er sett á markað.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, tilkynnti í morgun að heilbrigðisyfirvöld þar í landi hefðu gefið grænt ljós að umrætt bóluefni og næsta skref væri að hefja framleiðslu á því.

Barbosa, sem er Brasilíumaður, var meðal annars spurður út í hugmyndir þess efnis að bóluefnið yrði framleitt í Brasilíu þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif. Sagði hann að það yrði ekki gert nema óyggjandi sannanir um notagildi og öryggi bóluefnisins liggi fyrir.

Vísindamenn hafa margir hverjir efast um bóluefnið og sagt varasamt að bjóða það áður en lokastig prófana, svokallað þriðja stig, hefst. Það felur í sér þátttöku tugþúsunda einstaklinga og tekur ferlið marga mánuði, að því er segir í frétt ABC News. Bent er á það að í Bandaríkjunum þurfi 30 þúsund einstaklingar að taka þátt í þriðja stigs prófunum áður en hægt er að markaðssetja bóluefni.

Rússar sögðu í morgun að fjöldaframleiðsla á efninu hæfist í september en til stendur að framlínufólk, læknar þar á meðal, geti fengið bóluefnið síðar í þessum mánuði. Til stendur að bjóða almenningi bóluefnið í október næstkomandi.