Fjögur af tíu stærstu sveitarfélögunum voru með jákvæðan rekstrarafgang á árinu 2021 en sex skiluðu halla. Almennt séð voru tekjurnar meiri en búist var við en fjárhagsáætlanirnar voru gerðar í myrkri. Í greiningu sinni bendir Sigurður Snævarr, hagfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga, á að afkoma ársins 2021 sé mjög slök í sögulegu samhengi.

„Tekjuþróunin er þokkaleg, í kringum 10 prósentin. Það er töluvert mikið betra en gert var ráð fyrir,“ segir Sigurður.

Fjárhagsáætlanirnar haustið 2020 hafi þó verið gerðar á þeim tíma þegar ekki var vitað til hvaða aðgerða ríkið myndi taka eða hvernig veiran myndi haga sér. Í óvissu sé betra að áætla tekjur varlega.

Rekstrargjöldin hækka um 9 prósent, um 7,4 í Reykjavík en 10,4 í hinum níu sveitarfélögunum. En þau eru Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Akureyri, Garðabær, Mosfellsbær, Árborg, Akranes og Fjarðabyggð.

Atvinnuleysi fór hátt í faraldrinum en reyndist þó minna en óttast var. Sigurður bendir á að ríkið hafi komið inn með sterkar aðgerðir. Þá hafi áhrif atvinnuleysis verið minni en eftir bankahrunið því tekjulægra fólk missti vinnuna. Margt fólk sem var ekkert langt frá lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum.

Stórt vandamál er fjárfestingarþörfin. Viðhaldsþörf hafi byggst upp frá eftirhrunsárunum, sem birtist meðal annars í myglumálum sem komið hafa upp í skólum. Fjárfestingar Reykjavíkurborgar hafi verið 11,5 milljörðum minni en gert var ráð fyrir. Fjárfesting Reykjavíkur jókst hins vegar um 9,4 prósent á árinu, en aðeins 3,4 prósent í hinum níu sveitarfélögunum.

„Sveitarfélögin eru að ýta á undan sér verulegri fjárfestingarþörf,“ segir Sigurður. Sveitarfélögin séu ekki að ná vopnum sínum hvað þetta varðar og það sjáist meðal annars á misheppnuðum útboðum.

Svæði sem eru í örum vexti krefjast mikillar fjárfestingar í innviðum, svo sem Árborg og Reykjanesbær. Sigurður segir sveitarfélögin ekki ná að byggja upp þá innviði sem til þarf.

„Veitukerfin eru að verða mikið vandamál,“ segir Sigurður. „Það þarf að gera gríðarlega mikið átak í fráveitumálum. Fráveitan er eitt stærsta umhverfismálið.“ Þá sé uppbygging leikskóla stórmál því ef bjóða á börnum pláss frá 12 mánaða aldri kosti það sveitarfélögin gríðarlegar upphæðir. En í dag standi leikskólagjöldin aðeins undir um 10 prósentum rekstrarkostnaðar.

Samkvæmt greiningunni hækkaði launakostnaðurinn um 11,2 prósent, og rúmlega 2 prósentustigum meira í Reykjavík en hinum níu. Þessi kostnaður var 56 prósent af tekjum árið 2019 en er 60 prósent núna. Hækkun um 4 prósent á ekki lengri tíma enda voru Lífskjarasamningarnir þyngri fyrir sveitarfélögin en aðra. Þeir renna út í mars á næsta ári.

Sigurður bendir hins vegar á að stærsta fjárhagsmálið fyrir sveitarfélögin nú sé málefni fatlaðs fólks og beðið er eftir skýrslu um þau mál. Sigurður segir tekjustofninn hafa verið verulega vanreiknaðan þegar málaflokkurinn var færður yfir árið 2011. Hallinn árið 2020 af honum hafi verið á tíunda milljarð króna, sem samsvari heildartekjutapi sveitarfélaganna það ár.