Heilbrigðismál Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar um stöðu geðheilbrigðismála dregur skýrt fram að ekki hafi verið lögð nægileg áhersla á geðheilbrigðismál, segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Þessi skýrsla dregur skýrt fram að við höfum ekki lagt nægilega áherslu á þennan málaflokk alltof lengi. Það er blessunarlega í betra horfi og ég vísa þá í stefnu í geðheilbrigðismálum og aðgerðaáætlun. Nú erum við að fara aðra umferð í því og getum bætt okkur að þessu leyti.“

Ein af helstu niðurstöðum skýrslu Ríkisendurskoðunar er skortur á yfirsýn yfir málaflokkinn.

Mánaðabið eftir svörum

Upplýsingar um tíðni og þróun geðsjúkdóma liggja ekki fyrir, ekki er haldin miðlæg skrá um biðlista og ekki hefur farið fram greining á þjónustu og mannaflaþörf Landspítala. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um fjárþörf og raunkostnað þjónustunnar. Tölur um óvænt eða alvarleg atvik við veitingu geðheilbrigðisþjónustu eru ekki nægilega aðgengilegar né upplýsingar um fjölda kvartana til Embættis landlæknis. Engin skráning á beitingu þvingunarúrræða er fyrir hendi.

Ríkisendurskoðun varð sjálf fyrir barðinu á þessari óreglu en í skýrslunni er gagnrýnt hve erfiðlega gekk að fá svör og upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu vegna úttektarinnar: „Mátti Ríkisendurskoðun bíða mánuðum saman eftir svörum við tilteknum spurningum, þrátt fyrir ítrekanir. Ríkisendurskoðun telur jafnframt sum svör ráðuneytisins hafa verið óskýr og illa rökstudd þegar þau loks bárust,“ segir í skýrslunni.

Ráðherra segir verkefni geðheilbrigðismála skarast milli ráðuneyta og ekki sé dregið skýrt fram það umfang fjármagns innan heilbrigðisráðuneytisins sem fari í geðheilbrigðismál. Það falli vissulega undir skort á yfirsýn á málaflokkinn.

„Þetta er mjög víðfeðmur málaflokkur og undir hatti nokkurra ráðuneyta, það er þar sem við verðum að bæta okkur í þessari vinnu með geðheilbrigðismál,“ segir Willum Þór, spurður hvort geðheilbrigðismál hafi verið afgangsstærð innan heilbrigðiskerfisins. Hann segir geðheilbrigði þó lykilþátt í lýðheilsu. „Ég held að við höfum raunverulega bara sinnt því með svo afmörkuðum hætti,“ segir ráðherra.

Geti alltaf notað meira fjármagn

Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá því að Sjúkratryggingar samþykktu að greiða fyrir meðferð í Hollandi fyrir ungan íslenskan dreng í sjálfsvígshættu. Hann hafði verið á biðlista eftir að komast á barna- og unglingageðdeild síðan í fyrra og á þeim forsendum samþykktu Sjúkratryggingar að greiða fyrir meðferðina ytra.

Ráðherra segir þetta eðlilegt: „Við erum þó þannig verklega, að þar sem er ráðlagt að fara utan í einhverjum tilvikum, þá reynum við auðvitað að greiða leið fyrir þeirri þjónustu í gegnum Sjúkratryggingar. Það er eðlilegt.“

Spurður hvort ekki væri skynsamlegra að fullfjármagna geðheilbrigðisþjónustu segir Willum endalaust hægt að auka fjárveitingar.

„Við getum alltaf notað meira fjármagn, sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni og félagslegu þjónustunni.“