Lögreglan segir að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi haft tvær vikur en ekki sex til að flytja egypsku fjölskylduna úr landi á gildum skilríkjum.

Fylgd úr landi krefðist lengri undirbúnings til að ganga frá heimildum fyrir íslenska lögreglumenn til að ferðast til og í gegnum sömu lönd og fjölskyldan. Segist stoðdeildin hafa átt í samskiptum við lögmann fjölskyldunnar um þessa stöðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér vegna ummæla Magnúsar D. Norðdahl, lögmanns Kehdr fjölskyldunnar sem sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi, um að Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri Útlendingastofnunar hefði ekki farið með rétt mál í Kastljósi í gærkvöldi.

Magnús sagði í viðtali á Rás 2 í morg­un að hann muni kalla eft­ir skýr­ing­um á um­mæl­um Þor­steins um að hægt hefði verið að flytja fjöl­skyld­una úr landi í árs­byrj­un, fyr­ir kórónaveirufaraldurinn. Foreldrarnir hefðu þurft að sækja um fram­leng­ingu vega­bréfanna en ekki verið vilj­ug­ir til þess. Þess vegna hefðu yf­ir­völd þurft að óska eft­ir nýj­um vega­bréf­um frá egypsk­um yf­ir­völd­um og það ferli hefði tekið langan tíma.

Að sögn Magnús­ar runnu vega­bréf tveggja barna þeirra út 28. janú­ar og voru því gild frá 18. des­em­ber og því hafi verið hægt að vísa þeim úr landi á þeim tíma.

Geta ekki undirbúið brottvísun á tveimur vikum

Lögreglan segir að beiðni um framkvæmd brottvísunarinnar hafi borist stoðdeild frá Útlendingastofnun þann 13. janúar, tveimur vikum áður en skilríki barnanna runnu út, þann 28. janúar. Ekki hafa verið mögulegt að skipuleggja flutning fjölskyldunnar til heimalands á þeim tveimur vikum sem skilríki allra fjölskyldumeðlima hafi verið gild.

„Úrskurður kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja fjölskyldunni um vernd var birtur 18. nóvember 2019. Fjölskyldunni var veittur 30 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar sem rann út 18. desember. Í millitíðinni óskaði fjölskyldan eftir því að kærunefnd útlendingamála frestaði réttaráhrifum úrskurðarins til að fara með málið fyrir dómstóla en þeirri beiðni var hafnað af kærunefnd 10. janúar.

Þegar ljóst var að fjölskyldan hygðist ekki fara sjálfviljug til heimalands og að réttaráhrifum yrði ekki frestað vísaði Útlendingastofnun málinu til stoðdeildar ríkislögreglustjóra til framkvæmdar með beiðni dagsettri 13.1.2020,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Vita ekki hvar fjölskyldan er niðurkomin

Til stóð að framkvæma frávísun Kehdr fjölskyldunnar frá landi í morgun en að sögn lögreglu var fólkið ekki á fyrirfram ákveðnum stað þar sem stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi.

„Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki er verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ sagði í tilkynningu stoðdeild ríkislögreglustjóra.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður Kehdr fjöl­skyldunnar, veit heldur ekki hvar fjölskyldan er niðurkomin. Segist hann hafa heyrt fréttirnar á sama tíma og allir aðrir. „Þetta breytir engu efnislega um málið. Það verður látið reyna á þetta mál fyrir dómi þar sem krafist verður ógildingar á þeim úrskurðum sem þegar hafa fallið hjá kærunefnd og þeim úrskurðum sem enn eru væntanlegir,“ segir Magnús.

Tilkynning lögreglunnar í heild sinni:

Vegna fullyrðinga Magnúsar D. Norðdahl, lögmanns egypskrar fjölskyldu sem sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi, um að Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri Útlendingastofnunar hefði ekki farið með rétt mál í Kastljósi í gærkvöldi vill stoðdeild ríkislögreglustjóra koma eftirfarandi á framfæri.

Það er ekki rétt að stoðdeild ríkilögreglustjóra hafi haft sex vikur til að flytja fjölskylduna úr landi á gildum skilríkjum. Beiðni um framkvæmd ákvörðunar barst stoðdeild frá Útlendingastofnun þann 13.1.2020, tveimur vikum áður en skilríki tveggja fjölskyldumeðlima runnu út (28.1.2020).

Úrskurður kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja fjölskyldunni um vernd var birtur 18. nóvember 2019. Fjölskyldunni var veittur 30 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar sem rann út 18. desember. Í millitíðinni óskaði fjölskyldan eftir því að kærunefnd útlendingamála frestaði réttaráhrifum úrskurðarins til að fara með málið fyrir dómstóla en þeirri beiðni var hafnað af kærunefnd 10. janúar.

Þegar ljóst var að fjölskyldan hygðist ekki fara sjálfviljug til heimalands og að réttaráhrifum yrði ekki frestað vísaði Útlendingastofnun málinu til stoðdeildar ríkislögreglustjóra til framkvæmdar með beiðni dagsettri 13.1.2020.

Ekki var unnt að skipuleggja flutning fjölskyldunnar til heimalands á þeim tveimur vikum sem skilríki allra fjölskyldumeðlima voru gild. Slíkar fylgdir krefjast lengri undirbúnings sem meðal annars felst í því afla heimilda fyrir íslenska lögreglumenn til að ferðast til og í gegnum þau ríki sem ferðaleiðin gerir kröfu um.

Vinna við undirbúning fylgdarinnar hófst eftir að málið kom á borð stoðdeildar og var strax ljóst að afla þyrfti gildra skilríkja, annað hvort með framlengingu eða útgáfu nýrra skilríkja. Stoðdeild átti í samskiptum við lögmann fjölskyldunnar um þessa stöðu og tók hún þá ákvörðun að óska ekki eftir framlengingu vegabréfanna eins og þegar hefur komið fram.