Unga breska konan sem gekk til liðs við Íslamska ríkið fimm­tán ára gömul segist aldrei hafa viljað verða aug­lýsing fyrir sam­tökin. Hún vill aftur heim til Bret­lands og segist til­búin til að styðja „sum bresk gildi“ og að­lagast sam­fé­laginu á ný. 

Konan, Shamima Begum, fór frá heimili for­eldra sinna fyrir fjórum árum í þeim til­gangi að ganga til liðs við hryðju­verka­sam­tökin Íslamska ríkið í Sýr­landi. Hún giftist þar hollenskum manni og átti með honum tvö börn sem nú eru látin. Þriðja barnið kom í heiminn um ný­liðna helgi en Shamima heldur nú til í flótta­manna­búðum í Sýr­landi og segist vilja flytja aftur til Lundúna til þess að ala upp dreng sinn þar í landi. Utan­ríkis­ráð­herra Bret­lands hefur sett sig upp á móti fyrir­hugaðri heim­komu hennar og hyggst reyna að koma í veg fyrir hana. 

Shamima var í við­tali við breska ríkis­út­varpið í dag þar sem hún segist ekki sam­mála „öllum“ þeim gildum sem hryðju­verka­sam­tökin við­hafa, og kallar eftir fyrir­gefningu. 

„Ég í rauninni styð sum bresk gildi og er til­búin til þess að fara aftur til Bret­lands, setjast þar að og að­lagast sam­fé­laginu og allt það," sagði Shamima í sjón­varps­við­tali við BBC. 

Þegar hún var spurð út í á­rásir Íslamska ríkisins í Manchester árið 2017, þar sem 22 biðu bana, sagði hún það hafa verið rangt að drepa konur og börn, en að þarna hafi sam­tökin verið að hefna fyrir þær á­rásir sem hafi verið gerðar á höfuð­vígi sam­takanna í Sýr­landi. Um sé að ræða tví­eggja sverð. 

„Það er eitt að drepa her­mann, það er í lagi, það er sjálfs­vörn. En það er annað að drepa fólk eins og konur og börn, líkt og núna er verið að gera með sprengju­á­rásum í Bag­huz. Þetta gildir í báðar áttir," sagði hún og bætti að þarna hafi verið um hefnd að ræða, sem henni hafi þótt vera á­kveðin rétt­læting. 

„Ósanngjarnt“ að drepa saklaust fólk

Þá sagðist hún finna til með öllum þeim sem misst hafa ást­vini í á­rásum Íslamska ríkisins. „Þetta var ekki sann­gjarnt,“ sagði hún. „Þau voru ekki í stríði við neinn. Þau ollu engum skaða. En ég hef heldur ekki valdið neinum skaða, og það hafa konurnar og börnin sem verið er að drepa í Bag­huz heldur ekki gert.“ 

Shamima tók enn fremur fram að hún hafi sjálf aldrei leitast eftir því að koma sjálfri sér í fréttirnar, hvað þá að verða gangadi aug­lýsing fyrir Íslamska ríkið. „Það var ekki mitt val að verða for­síðu­stúlka fyrir Íslamska ríkið.“ 

Að­spurð sagði hún á­kvörðunina um að flytja til Sýr­lands al­farið hennar eigin. „Inn­blásturinn“ hafi hún að á­kveðnu leyti fengið eftir að hafa horft á mynd­bönd af víga­mönnum af­höfða fólk, sem og að sjá hversu „vel fólk lifði“ undir hatti Íslamska ríkisins. 

„En ég skal viður­kenna það núna, að sökin er mín. Ég vil bara fyrir­gefningu frá Bret­landi. Mér hefði aldrei dottið til hugar hvað ég hef þurft að ganga í gegnum. Að missa börnin mín með þeim hætti sem ég missti þau - ég vil ekki missa barnið sem ég á í dag og þetta er enginn staður til þess að ala upp barn, þessar flótta­manna­búðir," sagði hún, en frum­burður Shamimu lést úr næringar­skorti. Ekki hefur verið greint frá á­stæðum and­láts seinna barnsins.

Sjá má viðtal BBC við Shamimu Begum hér fyrir neðan.