Litlar breytingar verða á veðrinu næstu daga ef marka má hugleiðingar veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Líkur eru á skúrum sunnan til á morgun en annars verður svipað veður og hefur verið síðastliðna daga. „Enn eru breytingar á veðurspá milli daga alveg í lágmarki,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

„Kalt fyrir norðan og austan og víða næturfrost en ágætis hiti að deginum sunnan- og vestantil. Líkur á dálitlum skúrum að deginum um landið suðvestanvert, einkum þó við suðurströndina. Ekki eru miklar líkur á að mikið breytist á næstunni.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 5-13, en hægari breytileg átt S-lands. Stöku él á NA- og A-landi, annars skýjað með köflum og skúrir við S-ströndina. Hiti 2 til 10 stig að deginum, mildast SV-til en víða næturfrost.

Á miðvikudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-8. Skúrir á S-landi og dálítil él A-lands, annars þurrt. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og og víða bjart veður, en líkur á skúrum S-lands. Hiti 3 til 9 stig yfir daginn.

Á föstudag:

Norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en skýjað A-til. Svalt í veðri fyrir austan, en hiti að 10 stigum um landið SV-vert.

Á laugardag:

Útlit fyrir suðlæga átt með smáskúrum S- og V-lands.