Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hefur skilað inn til­lögum sínum um á­fram­haldandi sótt­varnar­að­gerðir innan­lands til heil­brigðis­ráð­herra en nú­verandi að­gerðir eru í gildi til 19. októ­ber. Þetta kom fram á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Líkt og áður hefur verið greint frá eru nú í gildi 20 manna sam­komu­bann á landinu öllu auk þess sem hertar að­gerðir tóku gildi á höfuð­borgar­svæðinu þar sem starf­semi sem krefst mikillar ná­lægðar var gert að hætta og tveggja metra reglan tekin upp á ný.

Að sögn Þór­ólfs er ekki mikið svig­rúm fyrir til­slakanir að svo stöddu þar sem enn eru margir að greinast með CO­VID-19. Far­aldurinn væri enn í stöðugum vexti, bæði hér á landi og er­lendis, en alls greindust 81 með innan­lands­smit í gær auk þess sem 18 manns greindust á landa­mærunum

„Eins og ég hef sagt áður þá tel ég að far­aldurinn muni ganga hægar niður núna heldur en fyrr í vetur, þannig að við þurfum á­fram að fylgjast með tölum milli daga og sjá hvað gerist núna á næstunni,“ sagði Þór­ólfur en hann gaf ekki frekari upp­lýsingar um hvað væntan­legar til­lögur gætu falið í sér.

Þess í stað sagði hann að tillögurnar fælu í sér betri skýringar á þeim tilmælum sem eru þegar í gildi. Líkt og áður mælir hann með því að gildistími aðgerðanna verði tvær til þrjár vikur.

Verði erfiðara að ná stjórn á faraldrinum í þetta sinn

Þór­ólfur sagði ljóst að það muni reynast erfitt að ráða niður­lögum far­aldursins og að til þess að það takist þurfi allir að standa saman. Hann sagðist telja að far­aldurinn muni ganga hægar niður núna heldur en fyrr í vetur og að ýmsar á­stæður væru þar að baki.

„Síðast­liðinn vetur kom far­aldurinn hingað nánast í einni gusu inn í landið og það náðist að taka utan um hann miklu fyrr og til­tölu­lega fljót­lega en núna hefur veiran náði að dreifa sér meira í sam­fé­laginu og því erfiðara að ná utan utan um far­aldurinn,“ sagði Þór­ólfur.

Hann bætti við að það gæti einnig verið að al­mennt sé minni sam­staða í sam­fé­laginu og því væru sumir ekki að fara eftir til­mælum í einu og öllu. Flestir væru þó að fylgja fyrir­mælum. „Til að ná full­komnum árangri þurfa hins vegar allir vel að vera með og ég hvet alla til til að gera sitt besta til að fá alla með í leikinn.“

„Við þurfum á­fram á allri okkar ár­vekni að halda til að lifa með veirunni og einnig að hafa sem minnst í­þyngjandi að­gerðir í gangi á hverjum tíma sem munu duga til að halda henni í skefjum,“ sagði Þór­ólfur að lokum. „Sam­staðan er besta sýkinga­vörnin.“